Selja pípur og safna fyrir orgeli

Hákon Leifsson organisti og Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur með pípu …
Hákon Leifsson organisti og Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur með pípu eins og nú er hægt aðkaupa. Alls verða 2.277 slíkar í nýju hljómmiklu orgeli kirkjunnar, en nú er verið að leggja lokahönd á smíði þess. mbl.is/Árni Sæberg

Við Grafarvogskirkju í Reykjavík hefur verið hrundið af stað söfnun vegna kaupa á orgeli fyrir kirkjuna. Í hljóðfærasmiðjunni Aeris Orgona í Búdapest í Ungverjalandi er um þessar mundir verið að leggja lokahönd á smíði orgelsins sem er 33 radda og pípur þess 2.277 talsins. Til þess að fjármagna kaupin stendur fólki nú til boða að kaupa eða borga fyrir pípur, sem eru misjafnar að stærð. Minnstu pípurnar kosta 5.000 kr. og svo hækkar verðið hlutfallslega eftir stærð. Fyrir þær stærstu þarf að gefa 100 þús. kr.

Vagga tónlistarlífs

„Veglegt pípuorgel er nokkuð sem alltaf hefur vantað í Grafarvogskirkju, sem var vígð árið 2000,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur.

„Orgelið sem við höfum í dag hæfir ekki kirkjunni sem er vinsæl fyrir kirkjulegar athafnir og tónleika auk helgihaldsins. Tónlistarfólk og kórstjórar sem hér spila í athöfnum velja oft flygil í stað orgels. Með pípuorgeli væntum við að breyting verði þar á, enda eru hér oft haldnir tónlistarviðburðir af ýmsum toga. Grafarvogskirkja er að mörgu leyti vagga tónlistarlífs hér í hverfinu. Væntanlega mun tónleikum fjölga enn frekar með tilkomu orgelsins. “

Stór biti fyrir söfnuðinn

Reiknað er með að uppsett með öllu kosti orgelið góða 110 milljónir króna. Í orgelsjóði Grafarvogskirkju eru í dag um 70 milljónir króna, svo enn vantar 40 milljónir króna í pottinn. „Kaupin á orgelinu eru stór biti fyrir söfnuðinn og við tökum ekki við hljóðfærinu fyrr en fjámögnun er tryggð alla leið,“ segir Guðrún. „Salan á pípunum er leið til þess að ná þeirri upphæð sem upp á vantar og sem betur fer höfum við fengið frábærar viðtökur hjá fólki hér í hverfinu og fleirum. Ég vona að málið náist í höfn í vor og þá verði hljóðfærið flutt til landsins og sett upp í kirkjunni í sumar. Uppsetning orgelsins er tveggja mánaða verkefni og á meðan verður helgihald okkar og athafnir í Kirkjuselinu í Spöng.“

Langt er síðan farið var að safna fyrir orgelkaupunum og var málið komið á rekspöl fyrir 15 árum eða svo, en var sett á núllpunkt eftir efnahagshrunið árið 2008. „Fyrir nokkrum misserum var svo farið af stað að nýju og eftir ábendingum var leitað til hins unga og áræðna Ungverja Farago Attila,“ segir Hákon Leifsson organisti og bætir við:

Breytir ásýnd athafna

„Attilla hefur getið sér orð fyrir smíði endurgerða af sögulegum orgelum. Hann er langt kominn með smíði orgelsins nýja, sem er í 19. aldar snemmrómantískum stíl. Það hefur samt nútímalegt útlit og fullkominn stafrænan búnað. Hljóðfærið mun því í mörgu tilliti breyta ásýnd athafna hér í Grafarvogskirkju sem er þekkt fyrir góðan hljómburð.“

Grafarvogssókn - Orgelsjóður kt. 520789-1389 / 0301-22-7382
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert