Fallega kraumandi gos

Björgunarmenn Arngrímur Hermannsson og Jón Trausti Bjarnason, fjær, á ferð …
Björgunarmenn Arngrímur Hermannsson og Jón Trausti Bjarnason, fjær, á ferð á gosslóðum í Geldingadölum. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég hef séð mörg eldgos, en ekkert er jafn aðgengilegt og fallegt og það sem nú kraumar í Fagradalsfjalli. Breytingar á gosinu og umhverfi þess eru stöðugar og áhugi fólks á þessu sjónarspili skiljanlegur,“ segir Arngrímur Hermannsson, björgunarsveitarmaður og þrautreyndur garpur í fjallaslarki. „Af 20 kílómetra dýpi kemur nýjasta hraun heims upp á yfirborðið. Mikilvægt er að leið fólks á svæðið sé góð og greið; göngubrautir merktar og leiðsögn veitt. Hvort sem eldgosið stendur yfir stutt eða lengi, er þetta einstakt aðdráttarafl. Staðurinn er stórbrotinn og verður áhugaverður lengi. Eldstöð nærri alþjóðaflugvelli er fyrirbæri á heimsvísu.“

Bráðnandi skósólar

Liðsmenn björgunarsveita standa vaktina við eldgosið á Reykjanesskaganum, þar sem nýjar sprungur með glóandi hraunelfi spretta fram í atburðarás sem kemur sífellt á óvart. „Já, ferðir mínar á gosslóðir að undanförnu eru orðnar nokkrar – rétt eins og ég hef komið að flestum gosum á landinu síðustu áratugi. Ég byrjaði í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík 1973 og hef margt séð á þeim tíma,“ segir Arngrímur.

„Í Heklugosinu árið 1970 fórum við nemendur í Réttarholtsskóla að Heklu og fylgdumst með hraunjaðrinum mjakast fram. Í Heklugosinu 1991 sáu sölumenn Icelandair tækifæri til að vekja athygli á vetrarferðum á Íslandi. Hingað kom blaðamaðurinn Kurt Teske frá stórblaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung til að skoða gosið. Sá var nokkuð hrokafullur og fannst ég ekki aka nógu nærri gígnum. Þegar ég neitaði að fara lengra hoppaði Kurt út og sagðist ganga síðasta spottann, en kom hlaupandi til baka þegar sólar á fjallaskónum bráðnuðu í heitri ösku.“

Göngufólk er vel búið

Flest eldgos á Íslandi koma upp á jöklum eða reginfjöllum þangað sem er torfært. Í Fagradalsfjalli eru aðstæður aðrar. „Að komast auðveldlega að glóandi hrauni sem streymir fram eins og í Geldingadölum er einstakt,“ segir Arngrímur.

„Allir sem geta þurfa að sjá þessi náttúruundur. Í ferðum mínum um svæðið að undanförnu sýnist mér göngufólk almennt hafa verið vel búið. Ef eitthvað mætti bæta þá þarf að stika aðra gönguleið til viðbótar A og B sem eru nokkuð háðar sömu vindátt. Þá er enn ekki farið að nota bestu gönguleiðina, sem er suðaustan Einihlíðar hvar er góður bílslóði sem björgunarsveitir hafa notað. Að hafa góða gönguleið samsíða akbraut myndi létta álagi af björgunarsveitarmönnum og auðvelda þeim að koma fólki til aðstoðar.“

Frumkvöðull í ferðum

Arngrímur Hermannsson á að baki langan feril í ferðaþjónustu. Stofnaði fyrirtækið Addís um 1990, seinna Íslenskar ævintýraferðir og nú síðast Into the Glacier. Hann er frumkvöðull í ferðum upp á jökla með erlenda ferðamenn. Í dag liggur ferðaþjónusta í landinu að mestu niðri vegna kórónuveirunnar, en Arngrímur segist vænta þess að þegar bólusetningar verði lengra komnar fari atvinnugreinin að komast aftur á skrið.

„Meðan kófið gengur yfir er ég í ýmsu stússi með flugbjörgunarsveitinni. Er á gosvakt og fór á dögunum með lávarðadeild björgunarsveitarinnar; eldri liðsmenn sem farnir eru af útkallslista en fengu þarna verkefni í ferð á ævintýraslóðir og urðu ekki fyrir vonbrigðum.“

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. apríl. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert