Þrýstingurinn mun halda áfram

Guðni Bergsson og Klara Bjartmarz eru formaður og framkvæmdastjóri KSÍ.
Guðni Bergsson og Klara Bjartmarz eru formaður og framkvæmdastjóri KSÍ. Ljósmynd/KSÍ

Knattspyrnusamband Íslands er meðvitað um þá umfjöllun sem hefur verið í gangi um aðbúnað verkafólks við uppbyggingu mannvirkja í Katar, þar sem HM 2022 verður haldið. Sambandið hefur átt í samskiptum við Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, og önnur knattspyrnusambönd vegna þessa.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu KSÍ í kjölfar opins bréfs sem ASÍ sendi sambandinu. Í bréfinu er þess krafist að KSÍ taki afdráttarlausa afstöðu með réttindum verkafólks og gagnrýni með skýrum hætti yfirvöld í Katar og yfirstjórn FIFA.

„Það er og hefur verið mikill þrýstingur á FIFA og á yfirvöld í Katar vegna mannréttindamála. Sá þrýstingur mun halda áfram og hann á að halda áfram. Keppnin sjálf og kastljós heimsbyggðarinnar setur þrýsting á yfirvöld í Katar að skoða mannréttindamál í víðu samhengi og vinna að úrbótum. KSÍ mun halda áfram að leggja lóð sín á vogarskálarnar í þeim efnum,“ segir í yfirlýsingu KSÍ.

„Aðaláhersla KSÍ í þessu sambandi undanfarin ár hefur verið þátttaka í sérstökum vinnuhóp knattspyrnusambanda á Norðurlöndunum þar sem fjallað er um málefni tengd HM í Katar – málefni eins og mannréttindi, aðbúnað verkamanna, kynjajafnrétti og fleira,“ segir þar einnig en næsta heimsókn er fyrirhuguð síðar á þessu ári.

Fram kemur að kröfur til umsækjanda um að halda lokakeppni HM hafi breyst frá þeim tíma sem samþykkt var að halda lokakeppnina í Katar. Lykilbreytingin er sú að aðildarsambönd FIFA greiða atkvæði þegar kemur að vali á mótshaldara en ekki valnefnd FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert