Vann 25 milljónir í Happdrætti Háskólans

Dyggur miðaeigandi til fjölda ára fékk 25 milljónir í aðalútdrætti apríl hjá Happdrætti Háskólans þegar dregið var fyrr í kvöld, að því er segir í tilkynningu.

Hlaut miðaeigandinn hæsta vinning sem er 5 milljónir króna en þar sem miðinn var trompmiði þá fimmfaldaðist vinningsupphæðin og vann hann því 25 skattfrjálsar milljónir.

Trompmiðaeigendur voru þó tveir þetta kvöldið. Annar trompmiðaeigandi fékk 500 þúsund króna vinning sem fimmfaldaðist og varð að 2,5 milljónum.

Sex hlutu eina milljón hver

Þá hlutu sex aðrir eina miljón króna hver og þrettán hálfa milljón króna hver. Margir hafa því ástæðu til að gleðjast í kvöld.

Þrefaldur pottur í Milljónaveltunni gekk þó ekki út og verða því 40 milljónir í pottinum í maí.

„Happdrætti Háskólans fagnar hækkandi sól og óskar um leið vinningshöfum innilega til hamingju með vinninga sína og gleðst yfir því að halda áfram að fjölga heppnum Íslendingum,“ segir í tilkynningu.

mbl.is