Fólk skilar sér ágætlega í AstraZeneca

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna, (t.v.) og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna, (t.v.) og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðeins verri mæting er hjá þeim sem eiga að fá bólusetningu gegn Covid-19 með bóluefni AstraZeneca en öðrum bóluefnum. Þrátt fyrir það er mætingin nokkuð góð. Vilji fólk bíða með að fá bólusetningu með efni AstraZeneca og fá bóluefnið frekar seinna er það möguleiki. 

Þetta segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Danir tóku ákvörðun um það í dag að hætta alfarið notkun bóluefnis AstraZeneca vegna mögulegrar tengingar á milli bóluefnisins og mjög sjaldgæfra blóðtappa. Danir eru eina þjóðin sem hefur alfarið hætt notkun bóluefnisins af þessum sökum. 

70 ára og eldri fá annað boð

Veldur það ykkur áhyggjum þegar þið heyrið neikvæðar fréttir af bóluefnum sem þessar?

„Við höfum áhyggjur af öllum ónákvæmum fréttaflutningi. Við viljum reyna að vinna þetta faglega og eftir bestu upplýsingum hverju sinni. Við viljum bara vekja athygli á því að það eru mjög góðar upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis og heilsugæslunnar sem eru uppfærðar reglulega,“ segir Sigríður Dóra. 

Er eitthvað um það að fólk afþakki bólusetningu með AstraZeneca? 

„Það hefur kannski verið aðeins verri mæting í AstraZenceca hópnum en fólk skilar sér ágætlega. Við erum á morgun að fara að boða fólk aftur sem af einhverjum ástæðum gat ekki mætt í fyrri bólusetninguna með AstraZeneca svo það eru þessir hópar yfir 70 sem eru að fá boð aftur,“ segir Sigríður Dóra. 

Geta beðið á meðan málin eru að skýrast

Hún bendir á að það sé sóttvarnalæknir sem taki ákvörðun í þessum efnum, ekki þau sem sjá um framkvæmd bólusetninga. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins vinnur einfaldlega út frá því að bóluefnið sé öruggt, sérstaklega fyrir eldra fólk.

„Við bara förum algjörlega eftir ábendingum og forsendum sóttvarnalæknis og treystum honum og hans fólki mjög vel til að meta allar þessar alþjóðlegu rannsóknir,“ segir Sigríður Dóra. 

Hún segir að ef fólk velji að koma ekki í AstraZeneca bóluefni þurfi það ekki að tilkynna það. 

„Fólk getur bara beðið á meðan málin eru að skýrast sem er bara skiljanlegt þar sem mikið flæði er af upplýsingum. Þá getur fólk beðið og komið seinna,“ segir Sigríður Dóra. 

Mögulega val um bóluefni síðar

Það er ekki ljóst hvort fólk sem afþakkar bólusetningu með tilteknu bóluefni geti fengið annað bóluefni síðar.  

„Núna verðum við að fara eftir forgangshópunum og því sem við eigum að boða en svo kannski í sumar þegar verður nóg af bóluefni getur vel verið að fólk geti meira valið en núna verður fólk bara að bíða ef það vill ekki það bóluefni sem er ráðlegt.“

Bóluefnasendingar til landsins fara stækkandi og segir Sigríður Dóra að heilsugæslan finni vel fyrir því. 

„Við erum með mjög stóra daga og það eru gríðarlega margir sem rúlla þarna í gegn. Það hefur allt gengið mjög vel og við ráðum alveg við þetta álag eins og það er núna.“

mbl.is