Ísland þarf að bæta eftirlit

Höfuðstöðvar EFTA í Brussel.
Höfuðstöðvar EFTA í Brussel. Mynd/EFTA

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) segir að Ísland þurfi að bæta eftirlit með aukaafurðum dýra. Tilmæli þessi um úrbætur koma fram í uppfærðri landsskýrslu sem metur árangur Íslands hvað öryggi matvæla og fóðurs, dýraheilsu og dýravelferð varðar.

Þetta er meginniðurstaða uppfærðrar landsskýrslu fyrir Ísland sem gefin var út í dag. Skýrslan er unnin sameiginlega af ESA og Íslandi, og veitir yfirlit yfir opinber eftirlitskerfi á Íslandi sem eiga að tryggja öryggi matvæla og fóðurs, dýraheilsu og dýravelferð. Skýrslan byggir á niðurstöðum eftirlits ESA frá því í nóvember 2020 að því er segir í tilkynningu frá ESA.

Þar athugaði ESA hvernig Ísland hefur brugðist við 64 opnum tilmælum um úrbætur. Tilmælin eru niðurstöður eftirlitsferða ESA til Íslands á tímabilinu febrúar 2016 til mars 2020.

ESA telur að Ísland hafi í langflestum tilfellum brugðist við tilmælum um úrbætur á fullnægjandi hátt. ESA kallar þó eftir að Ísland bregðist við tilmælum um að tryggja fullnægjandi eftirlit með aukaafurðum dýra sem ekki eru ætluð til manneldis. 

Í framhaldinu leitar ESA eftir því að Ísland tryggi að opinber eftirlitskerfi með aukaafurðum dýra uppfylli EES-reglur, sem þau gera ekki í dag. 

ESA fer reglulega í eftirlitsferðir til Íslands og Noregs til að ganga úr skugga um að opinbert eftirlit með öryggi matvæla og fóðurs, dýraheilbrigði og dýravelferð sé virkt og í samræmi við EES-reglur. Landsskýrslur fyrir Ísland og Noreg eru uppfærðar reglulega til að veita yfirlit um árangur þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert