Ritstjóri í 25 ár

Í Vancouver. Margrét við heimili sitt. Kirsuberjatrén eru nú í …
Í Vancouver. Margrét við heimili sitt. Kirsuberjatrén eru nú í blóma. Ljósmynd/Aðsend

Fréttablað Íslendingafélagsins í Bresku Kólumbíu í Kanada (ICCBC) er gefið út mánaðarlega 10 mánuði á ári. Margrét Bjarnason Amirault hefur verið ritstjóri blaðsins í aldarfjórðung og ekkert íslenskt er henni óviðkomandi. Eitt helsta baráttumál hennar er að kanadísk ungmenni af íslenskum ættum geti fengið tímabundið atvinnuleyfi á Íslandi, hafi þannig tækifæri til þess að vinna á landinu og kynnast upprunanum sem best, en hún hefur ekki enn haft erindi sem erfiði.

Íslendingafélagið var stofnað í Vancouver 1908 og hét þá Bókmenntafélagið Ingólfur. Ingólfur og Ísafold sameinuðust 1946 undir nafninu Ströndin, en núverandi nafn var tekið upp 1967. ICCBC er öflugasta félagið í íslenska þjóðræknisfélaginu vestra (INL of NA). Um 350 manns greiða árgjald og um 600 manns frá landamærum Bandaríkjanna norður í átt að Alaska fá félagsblaðið.

Margrét gekk í félagið fyrir 43 árum og hefur verið í stjórn frá því á níunda áratugnum. Hún segir að eftir því sem Íslendingar hafi blandast meira öðrum kynstofnum hafi áhugi þeirra á félaginu minnkað en starfsemin sé engu að síður blómleg. „Eftir að Ísland varð vinsæll ferðamannastaður fyrir nokkrum árum jókst áhuginn á félaginu okkar til muna,“ segir hún.

Er 100% Íslendingur

Afar Margrétar og ömmur fluttu frá Íslandi til Kanada 1888 og 1889 og hún fæddist og ólst upp á Gimli í Manitoba. „Ég ólst upp við íslensku talaða á götum úti, í verslunum, kirkjum og inni á heimilum, við vorum algerlega hluti af íslenskri menningu,“ rifjar hún upp og leggur áherslu á að fjölskyldan hafi alltaf haldið sambandi við ættingja á Íslandi. Hún segist hafa reynt að halda arfleifðinni að börnum sínum og barnabörnum og þegar Ísland hafi verið á hvers manns vörum og vakið athygli ferðamanna hafi hún tekið eftir að skortur var á tímabundnu vinnuafli. Því hafi hún talið að fólk af íslenskum ættum vestra gæti fengið vinnu á Íslandi. „Það var borin von, því svo virtist sem enginn frá löndum utan Schengen-svæðisins gæti fengið atvinnuleyfi.“

Fyrir um þremur árum heyrði Margrét að starfsfólk vantaði á Keflavíkurflugvelli. Barnabarn hennar hafði nýlokið háskólanámi og sendi fyrirspurn um starf í tölvupósti en fékk ekki svar. Margrét segist ekki hafa sætt sig við það og þar sem hún væri 100% Íslendingur hafi hún líka sent tölvupóst en ekki verið svarað. „Um 40.000 erlendir starfsmenn höfðu verið ráðnir frá Evrópu en enginn með íslenskt blóð í æðum í Norður-Ameríku gat fengið að vinna tímabundið á Íslandi.“

Í kjölfarið segist Margrét hafa snúið sér að opinbera geiranum til að athuga hvort ekki leyndist smuga í kerfinu. Hún hafi meðal annars sent fyrirspurn til íslenska sendiráðsins í Ottawa og nýlega fengið svar frá Pétri Ásgeirssyni sendiherra. Verið væri að vinna í málinu í samvinnu við stjórnvöld í Kanada og vonandi yrði það afgreitt síðsumars. „Ég á mér þá ósk að barnabörn mín og aðrir af íslenskum ættum fái tækifæri til að kynnast íslenskri menningu með því að vinna tímabundið á Íslandi,“ segir hún vongóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »