Athyglin beinist að bandarískum ferðamönnum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, segir að mikil …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, segir að mikil tækifæri séu í uppsiglingu fyrir ferðaþjónustuna í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki langt síðan markaðir innan Evrópu voru að mælast sterkari og gert ráð fyrir að fólk þar myndi fara fyrr af stað í ferðalög heldur en Bandaríkjamenn. Það hefur snúist við,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is.

Bólusetning gengur vel í Bandaríkjunum og beinir því ferðaþjónustan markaðssetningu þangað.

Ferðaviljinn mestur hjá bólusettu fólki 

Stjórnvöld tilkynntu í dag hertar aðgerðir á landamærum ásamt bólusetningaráætlun sem gerir ráð fyrir að þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir 1. júlí.

Ferðamenn frá skilgreindum áhættusvæðum verða skikkaðir í sóttvarnahús og heimilt verður að banna komu frá skilgreindum áhættusvæðum, nái frumvörp ríkisstjórnarinnar fram að ganga.

Spurð hvaða áhrif nýjustu vendingar muni hafa á ferðasumarið segir Þórdís:

„Framgangur bólusetninga hér innanlands hefur auðvitað áhrif á ferðaþjónustuna og ákvarðanir sem við tökum. Við erum að taka á móti fólki með bólusetningarvottorð og mótefnavottorð og það fer eingöngu í einfalda skimun hér,“ segir hún og bætir við að ferðamönnum fari fjölgandi.

Icelandair sækir á bandarískan markað

„Ég lít svo á að ferðaþjónustan geti athafnað sig innan þessara reglna og við munum geta tekið við fólki. Að stórum hluta verður það bólusett fólk,“ segir hún. Markaðir innan Evrópu hafa mælst sterkari en Bandaríkin en sú þróun hefur snúist við:

„Bandaríkin eru að taka við sér. Ferðaviljinn er meiri og það hangir auðvitað saman við bólusetningar,“ enda sé ferðaviljinn langmestur hjá bólusettu fólki. Ekki líður á löngu þar til Delta Air Lines fer að fljúga til landsins og Icelandair hefur sótt á bandarískan markað, til að mynda með stórri auglýsingu sem birtist fyrir vegfarendum Times Square, að því er mbl.is greindi frá í dag.

„Það eru töluverð tækifæri fyrir ferðaþjónustu inn í sumarið,“ segir hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert