Búsettir á Íslandi líklegri til að vera smitaðir

Úr Leifsstöð. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Úr Leifsstöð. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Árni Sæberg

Talið er að fólk sem búsett er á Íslandi en dvelst erlendis, á svæðum þar sem kórónuveirusmit eru útbreidd, og á í nánum félagslegum tengslum þar, sé hlutfallslega líklegra til þess að greinast með kórónuveirusmit við heimkomu en ferðamenn. 

Þetta kemur fram í fylgiskjali við skýrslu um fyrirkomulag sóttvarna á landamærum sem uppfærð var 16. apríl síðastliðinn. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Þar segir að ofangreinda ályktun megi „draga út frá því að skoða annars vegar að stærstur hluti þeirra sem greindust á þessu tímabili [frá 15. ágúst til 10. desember] höfðu búsetu á Íslandi, eða virðast vera líklegir til að hafa sterk tengsl við Ísland.“

Hvað þessa tilgátu varðar er einkum stuðst við tölur um einstaklinga sem ferðast til landsins frá Póllandi, og eru í mörgum tilvikum með pólskt ríkisfang en búsettir á Íslandi.

„Við gerum ráð fyrir því að ferðalög frá Póllandi séu að miklu leyti fólk sem hefur félagsleg tengsl bæði í Póllandi og á Íslandi, frekar en að um hefðbundna ferðamenn sé að ræða. Þessi forsenda byggist á dómgreind, en margt í gögnunum gefur tilefni til að ætla að óhætt sé að gefa sér þessa forsendu,“ segir í skjalinu. 

Ólíklegt að ferðamenn frá svæðum þar sem lítið er um smit séu smitaðir

Önnur tilgáta sem sett er fram í skjalinu er sú að mjög ólíklega séu ferðamenn sem koma hingað til lands frá svæðum þar sem smit eru ekki útbreidd smitaðir af kórónuveirunni. 

„Gera verður ráð fyrir að þeir sem koma til landsins til þess að ferðast séu líklegir til þess að koma einungis ef þeir hafa fulla heilsu, og einnig munu vera töluverð brögð að því að einstaklingar sem höfðu í hyggju ferðalög til Íslands hafi sóst eftir sýnatöku í heimalandinu til þess að draga úr líkum á að þurfa að sæta einangrun á Íslandi ef þeir væru smitaðir,“ segir í skjalinu. 

Þriðja tilgátan sem sett er fram í skjalinu er sú að nýgengi á dvalarstað heimkomufarþega virðist gefa vísbendingu um líkur á smiti ef þeir hafa verið í aðstæðum þar sem um sterk félagsleg tengsl var að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert