Boða til fundar á Ingólfstorgi

Alþýðufylkingin blés einnig til fundar á Ingólfstorgi 1. maí í …
Alþýðufylkingin blés einnig til fundar á Ingólfstorgi 1. maí í fyrra.

Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, er í dag. Vegna kórónuveirunnar og gildandi takmarkana í samfélaginu verður minna um hátíðahöld en í venjulegu árferði. Þrátt fyrir það boðar Alþýðufylkingin til útifundar á Ingólfstorgi í miðbæ Reykjavíkur klukkan tvö í dag, þó innan gildandi samkomutakmarkana og sóttvarnaaðgerða. 

Klukkan níu í kvöld verður hátíðahöldum í tilefni dagsins sjónvarpað á RÚV. 

Hátíðahöldin voru líka í minni sniðum en vant er í fyrra, en þá var kórónuveirufaraldurinn í raun rétt að byrja. 

Alþýðufylkingin segir í pistli í tilefni dagsins að það hafi ekki skilað sér í breyttri stefnu að Vinstri græn hafi komist í ríkisstjórn. 

Markaðsvæðingin er áfram allsráðandi, og eykst frekar en hitt. Samþjöppun og einokun vex, sem leiðir til vaxandi ójafnaðar. Loks er stuðningur ríkisstjórnarinnar við stríðsrekstur og refsiaðgerðir Bandaríkjanna og NATO jafn skilyrðislaus og áður, umsvif bandarísku heimsvaldastefnunnar aukast jafnt og þétt og Ísland er aftur að verða stökkpallur í nýju köldu stríði. Þá hefur ríkisstjórn Íslands stutt pólitískt og fjárhagslega við hryðjuverkastarfsemi og valdaránstilraunir fasista í Venesúela.

mbl.is

Bloggað um fréttina