„Það er nóg til“

Drífa Snædal segir húsnæðismál eitt stærsta viðfangsefni samtímans og bæta …
Drífa Snædal segir húsnæðismál eitt stærsta viðfangsefni samtímans og bæta þurfi úr ýmsu í þeim efnum. Ljósmynd/ASÍ

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að íslenskt samfélag hafi burði til að deila þeim gæðum sem til skiptanna eru þannig að enginn þurfi að líða skort. Drífa ávarpar þjóðina í myndskeiði í tilefni baráttudags verkalýðsins, 1. maí. 

Þegar harðnar á dalnum innan heimilis eru viðbrögðin ekki þannig að heimilisfaðirinn fái meira að borða en aðrir minna, nei, því sem er til skiptanna er deilt með sanngjörnum hætti milli heimilisfólksins. Þegar gesti ber að garði þá er gefið það sem hægt er af gestrisni og gjafmildi, gjarnan með orðunum „það er nóg til“,“ segir Drífa. 

Hún segir að gjarnan heyrist þær raddir frá viðsemjendum verkalýðsfélaganna og stjórnvöldum að laun í landinu séu of há, útflutningsgreinarnar eigi að ráða hvað sé til skiptanna og meiri aga þurfi á vinnumarkaðinn.

Í orðunum liggur skilningsleysi gagnvart stöðu þorra launafólks, að við séum ekki bara almennt sátt við okkar,“ segir Drífa. 

Í pistlinum fer hún yfir atriði sem að hennar mati þarf að bæta úr svo sátt geti náðst á vinnumarkaði. Hér að neðan má lesa um þau atriði sem Drífa telur mikilvægust:

„Í fyrsta lagi þurfum við öll að njóta auðlindanna okkar, þær eiga ekki að ganga kaupum og sölum eða vera seld á hrakvirði í samningum við orkufrek stórfyrirtæki sem koma sér hjá skattgreiðslum hér á landi. Það verður engin sátt á meðan risarnir í sjávarútveginum hafa 42 milljarða í hagnað en greiða einungis 4,8 milljarða í afnot af auðlindinni.

Það verður heldur engin sátt á meðan þeir ríkustu komast hjá því að greiða í sameiginlega sjóði, hvort sem er með skattaundanskotum, skattaívilnunum eða aflandsfélögum. Það verður ekki til að auka á sáttina að veikja eftirlitsstofnanir og auðvelda þannig svik gagnvart almenningi.

Skattana og auðlindagjöldin á að nota til að styrkja velferðarkerfið og koma því þannig fyrir að fólk þurfi ekki að velta fyrir sér hvort það hafi efni á að viðhalda heilsu sinni. Við getum öll notið menntunar og þess að kerfið grípi í raun og veru þau sem detta út af vinnumarkaði. Örorka eða aldur verði ekki ávísun á fátækt.

Eitt stærsta viðfangsefni samtímans eru húsnæðismál og þarf stórátak til að bæta úr þeim. Skortur á góðu húsnæði á viðráðanlegu verði leiðir af sér að ungt fólk getur ekki komið sér upp þaki yfir höfuðið. Búseta í óviðunandi húsnæði er enn staðreynd og hefur nú þegar haft skelfilegar afleiðingar. Það getur enginn stjórnmálaflokkur skilað auðu í húsnæðismálum en verkalýðshreyfingin mun ekki liggja á liði sínu frekar en fyrri daginn. Við krefjumst þess að félagsleg hugsun verði í uppbyggingu húsnæðis því hinn frjálsi markaður mun aldrei geta mætt kröfunum um gott húsnæði fyrir okkur öll.

Í umræðu um kaup og kjör er látið að því liggja að uppbygging launa í íslensku samfélagi sé meitluð í stein. Að það sé einhver sátt um hvaða störf séu verðmætust, til að mynda að margfaldar greiðslur gangi til þeirra sem sýsla með peninga á meðan þau sem annast fólk eru talin verðskulda minnst. Við búum enn við skipulagt vanmat á vinnuframlagi kvenna, sum menntun er metin til launa en önnur ekki og ný stéttaskipting hefur litið dagsins ljós í vanmati á vinnuframlagi og menntun fólks af erlendum uppruna.

Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsúrræði hafa aldrei verið jafn þýðingarmikil og síðasta árið og sýnt okkur hvað öryggiskerfin eru gríðarlega mikilvæg en líka hvað þau geta dugað skammt. Það er algert metnaðarleysi að gera ráð fyrir áframhaldandi atvinnuleysi og tími til að gera stórátak í atvinnusköpun og standa við stóru orðin um opinberar fjárfestingar. Þær fjárfestingar eiga ekki bara að vera í byggingum og steypu heldur ekki síður í fólki, þjónustu og hugmyndum.

Nú ómar söngurinn um ofalið launafólk og greinilegt að sérhagsmunaöflin ætla að kenna launum fólks um allt sem miður fer í heimsfaraldri og djúpri kreppu. Þá er gott að spyrja: hverjir eru í raun ofaldir í íslensku samfélagi? Svarið er meðal annars að finna í skattskrá ríkisskattstjóra, í greiningum Hagstofunnar og í sumum tilvikum á aflandseyjum.

Það undarlega ástand sem við höfum búið við nú í meira en ár hefur afhjúpað bæði styrkleika og veikleika í okkar samfélagi. Lengst af hefur okkur tekist að sóttverja okkur án mikilla valdboða, við höfum verið sammála um að standa saman og hugsa um heildina. Öll gerum við okkar til að tryggja heilsu allra – við höfum leitað í samtrygginguna enda er hún besta vörnin. Samtryggingarkerfin okkar hafa líka verið hornsteinn baráttunnar, hvort sem um ræðir atvinnuleysistryggingar, heilbrigðiskerfið eða menntakerfið. Það er augljóst að í þeim löndum þar sem einstaklingshyggjan ræður öllu hefur veiran náð betri fótfestu. Svarið til framtíðar hlýtur því að vera aukin samtrygging, hvort sem er í veiruvörnum eða öðru. Það er nóg til!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert