Ók greitt gegn rauðu ljósi í vímu

Ótrúlega margir ökumenn eru stöðvaðir á hverjum einasta degi fyrir …
Ótrúlega margir ökumenn eru stöðvaðir á hverjum einasta degi fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Lögreglan fékk tilkynningu um umferðaróhapp í Árbænum á áttunda tímanum í gærkvöldi en sá sem olli tjóninu ók greitt af vettvangi og yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. 

Lögreglumenn höfðu síðar afskipti af ökumanninum við heimili hans þar sem hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna auk fleiri brota.  Ökuníðingurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Bifreið var stöðvuð eftir hraðamælingu á Suðurlandsvegi skömmu eftir miðnætti í nótt en bifreiðinni var ekið á 124 km/klst. þar sem leyfður hraði er 80 km/klst. 

Ökumaðurinn, sem er 17 ára, taldi sig hafa verið á minni hraða en kvaðst ekki hafa verið að fylgjast með hraðamælinum. 

Síðdegis í gær varð mótorhjólaslys við Tungumela í Mosfellsbæ en þar hafði 17 ára ungmenni fallið af mótorkrosshjóli og var með áverka á baki. Hann var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðamóttöku Landspítalans. Forráðamaður var með viðkomandi á vettvangi.

Sex ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni í gærkvöldi og í nótt fyrir ýmis brot. Meðal annars ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna. Ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda og í flestum tilvikum voru viðkomandi ökumenn bæði í vímu og próflausir þar sem þeir hafa áður verið sviptir slíkum réttindum. 

mbl.is