Sammála sérfræðingum um áfengi en ekki fíkniefni

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra virðist ekki sammála Læknafélaginu eða landlækni um …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra virðist ekki sammála Læknafélaginu eða landlækni um afglæpavæðingu neysluskammta ólöglegra fíkniefna, en vísaði til sérfræðiþekkingar þeirra máli sínu til stuðning er hún var mótfallin áfengisfrumvarpinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungt fólk á aldrinum 18 og 19 ára, sem í dag er óheimilt að hafi áfengi við hönd, verður heimilt að hafa í fórum sínum neysluskammta af fíkniefnum verði frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta samþykkt. Þetta ósamræmi frumvarpsins og gildandi áfengislöggjafar er eitt þeirra atriða sem bent er á í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Í umsögninni leggst lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gegn samþykkt frumvarpsins eins og það hefur verið kynnt. „Gengið er lengra í frumvarpinu en yfirlýst markmið ber vott um auk þess sem talið er að skoða verði gaumgæfilega aðra þætti er lúta að markmiðinu,“ segir í umsögninni.

Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarpið þrátt fyrir gagnrýni embættis landlæknis á fyrri stigum og leggjast embættið og Læknafélag Íslands (LÍ) nú gegn samþykkt þess í umsögnum sínum. Svandís vísaði hins vegar til sjónarmiða þessara aðila þegar hún sjálf var mótfallin samþykkt frumvarps um áfengissölu árið 2015 og aftur 2017.

Var sammála í tilfelli áfengis

Árið 2015 var lagt fram frumvarp 16 þingmanna um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Var markmið laganna að auka frjálsræði með sölu áfengis.

Svandís, sem þá var þingmaður VG, lagðist eindregið gegn frumvarpinu og vísaði til sérþekkingar annarra máli sínu til stuðnings. „Umboðsmaður barna, Læknafélag Íslands, embætti landlæknis og allir þessir aðilar tala um að hagsmunir barna séu í hættu við samþykkt þessa frumvarps,“ sagði hún meðal annars í þingræðu sinni 15. október 2015. Þá sagði hún það „skeytingarleysi“ að þingmenn leyfðu sér málflutning „sem byggir á því að ákvarðanir þurfi ekki að byggja á rökstuðningi og þekkingu“.

Svandís Svavarsdóttir var sem þingmaður sammála mati lækna.
Svandís Svavarsdóttir var sem þingmaður sammála mati lækna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áfengisfrumvarpið fékkst ekki afgreitt úr nefnd og var endurflutt árið 2017. Við tilefnið endurtók Svandís fyrri rökstuðning. „Hér erum við með umboðsmann barna, Læknafélag Íslands, embætti landlæknis, og allir þessir aðilar nefna hagsmuni barna sérstaklega og að þeir hagsmunir séu í hættu ef þetta frumvarp verður samþykkt. […] Það að hunsa leiðsögn þessara aðila gengur ekki að mínu mati öðruvísi en að vera með afar sterk rök sem halda beinlínis hinu gagnstæða fram.“

Engin fyrirheit um átak

Í greinargerð frumvarps heilbrigðisráðherra er vísað til þeirra lagabreytinga sem gerðar voru árið 2001 í Portúgal þar sem aflagðar voru fangelsisrefsingar fyrir vörslu neysluskammta ólöglegra vímuefna og fleiri lagabreytinga. Þetta er sagt hafa gefið góða raun.

Í umsögn embætti landlæknis er aftur á móti bent á að afglæpavæðing í Portúgal hafi ekki átt sér stað ein og sér. Hins vegar var einnig „gerð langtímaáætlun og ákveðið að fjármagn til málaflokksins skyldi tvöfaldað yfir fimm ára tímabil. Samhliða afglæpavæðingunni voru metnaðarfullar fjárfestingar gerðar í heilbrigðisþjónustu og sett fram umfangsmikil heildræn stefna.“

mbl.is/​Hari

Frumvarpið gefur hins vegar engin fyrirheit um sambærilegt átak í málaflokknum hér á landi samhliða afglæpavæðingu. „Hvergi kemur skýrt fram í frumvarpinu tillaga eða áætlun um auknar forvarnir,“ segir í umsögn embætti landlæknis.

Þá er heldur ekki að finna í frumvarpi heilbrigðisráðherra, eða greinargerð sem því fylgir, nákvæma lýsingu á því hvað neysluskammtur sé. Vekja bæði LÍ og lögreglustjórinn athygli á þessu og vara við þeirri aðferðafræði sem liggur að baki lagasetningu sem heimilar ráðherra að skilgreina hvað sé neysluskammtur í reglugerð.

Hafa áhyggjur af ungu fólki

LÍ „leggst eindregið gegn því að þetta frumvarp verði samþykkt,“ segir í umsögn félagsins sem vekur athygli á því að af „óskýrðum ástæðum“ hafi frumvarpið ekki verið sent félaginu til umsagnar eins og tíðkast hefur. Þá segir að á hverju ári láti ungt fólk lífið vegna fíknar. „LÍ leggur áherslu á að efla og auka meðferðarúrræði fyrir þá sem berjast við fíkn og verja auknu fjármagni til slíkra verkefna.“

Þá er það mat embættis landlæknis „að varhugavert sé að stíga þetta skref án þess að móta heildarstefnu í þessum málaflokki og sem tekur tillit til allra þátta; því styður embættið ekki frumvarpið í núverandi mynd“. Þá telur embættið lagabreytinguna kunna að hafa víðtæk áhrif meðal annars á stöðu barna og ungmenna og er vegna þessa „nauðsynlegt að gert sé mat á hagrænum og fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins til að áætla heildaráhrif þess á ríki og sveitarfélög að teknu tilliti til kostnaðar og ávinnings til lengri tíma“.

Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er sagður skortur á heildrænni …
Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er sagður skortur á heildrænni stefnu í málaflokknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglustjórinn tekur í sama streng í umsögn sinni og segir að nær hefði verið að „móta heildstæða stefnumótun áður en frumvarpið var lagt fram, þar sem hugað hefði verið að því hverjir séu neytendur og hvernig afglæpavæðing neysluskammta fari saman við vinnu um fíkniefnaforvarnir til að verja böm og ungmenni.“

Bent er á að fíkniefnaneysla ungmenna hafi verið mjög lítil hér á landi og að „íslenska forvarnarmódelið hefur verið „flutt út“ til annarra landa sökum þess hve góður árangur hefur náðst varðandi vímuefnaneyslu ungmenna. Hætt er við að þeim árangri verði stefnt í voða með því að gera vörslur á neysluskömmtum refsilausar, þ.e. „normalisera“ neyslu fíkniefna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert