Leggja lokahönd á fyrri varnargarðinn

Unnið að því að ryðja upp varnargörðunum.
Unnið að því að ryðja upp varnargörðunum. Ljósmynd/Ólafur Þórisson

Verktakar, sem vinna að því að stífla hraunrennsli frá eldgosinu í Geldingadölum þannig að það fari ekki niður í Nátthaga, voru mættir aftur á gossvæðið snemma í morgun til að halda áfram með smíðina. Þegar er kominn þrýstingur frá hrauninu á neyðarruðninga við varnargarðinn, en ákvörðun um hvort varnargarðarnir verði hækkaðir verður tekin í dag eða á morgun.

Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, hefur umsjón með verkinu en hann var mættur upp eftir nú á tíunda tímanum þegar mbl.is náði tali af honum. Hann segir að þegar hafi um tvö þúsund rúmmetrum af efni verið rutt upp í varnargarð vestan megin og er gert ráð fyrir að hann klárist um hádegi. Síðan verður hafist handa við varnargarðinn austan megin.

Hann segir að ákveðið hafi verið að stoppa og taka hvíld klukkan sjö í gærkvöldi, en að menn hafi svo verið mættir aftur snemma í morgun til að halda áfram.

Neyðargarðar til að passa undanskot af hrauninu

Aðfaranótt föstudags hófust framkvæmdir en Ari segir að þá hafi í skyndi verið komið upp svokölluðum neyðarruðningum sem hafi verið settir upp við hraunkantinn. „Þeir passa að við fáum ekki undanskot af hrauninu,“ segir Ari, en þar á hann við að heitglóandi hraun komi undan kantinum. Þessi garður er í raun ekki varnargarður heldur frekar til að tryggja vinnusvæðið.

Í framhaldinu hafi verið hafist handa við að koma upp varnargarði suðvestan megin í Meradölum, við svokallaðan Nafnlausadal, til að koma í veg fyrir að hraunið flæddi niður í Nátthaga. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem Náttúruminjasafn Íslands birti um mögulegan farveg hraunsins, getur það farið hvort sínu megin við hæð sem er fyrir miðjum suðurenda Meradala.

Fari hraunið þar niður er stutt í að það gæti farið yfir ljósleiðara sem liggur niðurgrafinn í Nátthaga og svo yfir Suðurstrandarveg.

Kort sem sýnir mögulegt hraunflæði frá gosinu í Geldingadölum.
Kort sem sýnir mögulegt hraunflæði frá gosinu í Geldingadölum. kort/Náttúruminjasafn Íslands

Varnargarðurinn var kominn á blað fyrir 10 dögum

Ari segir að verkefni sem kallast varnir mikilvægra innviða hafi hafist tveimur vikum fyrir gosið, en um leið og gosið hófst hafi starfsmenn Verkís byrjað að reikna mögulega hraunrennslisfarvegi. Segir hann að því hafi menn haft líkan af því hvernig hraunið myndi renna inn í þennan dal og haft svigrúm til að undirbúa aðgerðir. „Þessi varnargarður var settur upp á blað fyrir um 10 dögum síðan,“ segir hann.

Vestari varnargarðurinn verður að sögn Ara klár núna um hádegi og verður þá farið í að koma upp austari garðinum. Ari segir að báðir garðarnir séu í svipaðri hæð og að fyrstu drög miði við að þeir verði báðir fjórir metrar á hæð. Hraunið hafi hins vegar lagst meira í áttina að vestari garðinum og því hafi legið meira á að klára hann.

Jarðýta ryður upp neyðargarðinum austan megin í gær.
Jarðýta ryður upp neyðargarðinum austan megin í gær. Ljósmynd/Ólafur Þórisson

Ákvörðun um hækkun garðanna í dag eða á morgun

Ari gerir ráð fyrir að austari garðurinn klárist á morgun, en ákvörðun verður tekin í dag eða á morgun um hvort garðarnir verði hækkaðir upp í um 8 metra hæð.

Þegar er kominn þrýstingur á neyðarruðninginn að sögn Ara, en þegar hann brestur tekur varnargarðurinn við. Segir Ari að í grunninn séu þessir varnargarðar ekkert ólíkir t.d. varnargörðum fyrir snjóflóð. Sömu lögmál eru þar á bak við þótt forsendurnar séu mismunandi.

mbl.is