„Sjálfsvíg á ekki að vera tabú“

„Það líður öllum betur í dag. Það eru sex ár …
„Það líður öllum betur í dag. Það eru sex ár síðan en samt alltaf eins og það hafi gerst í gær. Þetta er alltaf í huganum, en þetta er sár sem við höfum þurft að læra að umgangast og við erum að því,“ segir Sigurbjörg Sara Bergsdóttir sem gerði heimildamyndina Þögul tár sem fjallar um sjálfsvíg. mbl.is/Ásdís

Ótímabært dauðsfall ástvinar er alltaf harmleikur. Þegar dauðann ber að vegna sjálfsvígs er áfallið jafnvel enn meira og dýpra þar sem fjölskylda og vinir sitja eftir með sjálfsásakanir sem sækja á hugann.

Sigurbjörg Sara Bergsdóttir þekkir vel þennan harm. Fyrir sex árum svipti fyrrverandi eiginmaður hennar og barnsfaðir, Halldór Birgir Jóhannsson, sig lífi. Sigurbjörg og börnin hennar þrjú hafa farið í gegnum langt og strangt ferli til að læra að lifa með sorg og söknuði. Hún segir fólk aldrei fyllilega ná sér en hægt sé að ganga lífsins veg með sorgina í farteskinu.

Sigurbjörg vinnur hjá Lausninni og hefur starfað sem ráðgjafi í fimmtán ár. Vinna hennar felst í að aðstoða fólk sem lent hefur í áföllum og glímir við kvíða og þunglyndi. Þrátt fyrir að hafa lært allt um áföll og sorgarviðbrögð var ekkert sem bjó hana undir að standa sjálf í þeim sporum að eiga ástvin sem kýs að yfirgefa jarðlífið.

Sex árum síðar hefur hún gert heimildarmyndina Þögul tár um sjálfsvíg. Það er hennar leið til að leggja lóð á vogarskálarnar í baráttunni en hún telur nauðsynlegt að opna á umræðuna um sjálfsvíg og ber hún þá von í brjósti að myndin hafi forvarnargildi.

Að bera harm sinn í hljóði

Það var í apríl árið 2015 að reiðarslag dundi yfir fjölskylduna þegar fyrrverandi maður Sigurbjargar og faðir barnanna svipti sig lífi.

„Hann var vandaður og góður maður; hafði verið afreksmaður í íþróttum. Við skildum árið 2013 í góðu og það var gott á milli okkar. Ég átti ekki von á þessu. Þetta var algjört áfall og nokkuð sem maður myndi aldrei trúa að maður myndi upplifa,“ segir Sigurbjörg en saman áttu þau tvö börn og fyrir átti hún dreng sem Halldór hafði gengið í föðurstað.

„Halldór átti sér enga sögu um þunglyndi. Þetta gerðist áður en maður heyrði orðið brosþunglyndi,“ segir Sigurbjörg og útskýrir fyrir blaðamanni hugtakið brosþunglyndi.
„Það er fólk úr öllum stéttum, óháð aldri, sem glímir við þunglyndi og það sést ekkert endilega utan á því. Oft eru það þeir sem virðast glaðastir sem bera harm sinn í hljóði.“

Skildi hann eftir bréf fyrir ykkur?

„Já, hann gerði það. Bréfið hjálpaði við það að við værum ekki að ásaka okkur. Ég held að allir sem fara í gegnum svona fari að ásaka sjálfa sig. Ég fór í gegnum það eins og aðrir sem lenda í svona.“

Ómetanlegt að fá prest

Börnin þrjú voru fimm, ellefu og sautján ára þegar faðir þeirra dó. Sigurbjörg segir þau hafa tekist á við sorgina á mismunandi hátt.

„Yngsti strákurinn minn fer í raun ekki að syrgja fyrr en þremur árum síðar. Eftir að pabbi hans dó var hann í byrjun svo hræddur við að líða illa því hann heyrði fólk segja að pabba hans hafi bara liðið svo illa. Litli fimm ára barnshugurinn barðist við að láta sér ekki líða illa, svo hann myndi ekki deyja. Það er margt svona sem maður veit ekki, en þegar maður verður fyrir svona áfalli eru engir verkferlar sem fara í gang; ekkert sem tekur utan um fólk. Nema hjá þjóðkirkjunni; það kom prestur heim og ég er mjög þakklát fyrir það. Mér fannst það ómetanlegt. Hann sat hjá mér á meðan ég las bréfið frá Halldóri. Hann var hjá mér þegar ég sagði börnunum frá andlátinu. Ég hefði aldrei viljað vera án þess. Þetta var það eina sem fór í gang af verkferlum; það var enga aðra hjálp að fá,“ segir Sigurbjörg og segist hreinlega ekki hafa vitað hvað hún ætti að gera eða hvert hún ætti að leita.

Varnarleysið gerir mig reiða

Vöknuðu reiðitilfinningar?

„Já, það væri lygi að halda öðru fram,“ segir Sigurbjörg og segir reiðina hafa brotist fram vegna tilfinninga um varnarleysi hennar sem móður.

„Ef barnið þitt kemur til þín með sár er hægt að ná í plástur. Ég stóð algjörlega varnarlaus og átti engin ráð. Ég gat ekki sagt að allt yrði í lagi. Eina sem ég gat var að halda á loft góðum minningum og vera til staðar, halda utan um þau og reyna að koma þeim til manns. En þetta er alltaf þarna og sársaukinn grípur alltaf inn í. Við þurfum öll að vera meðvituð um það. En varnarleysið gerir mig stundum reiða; að geta ekki linað sársauka barna minna.“

Nú heyrir maður oft fólk segja að sá sem tekur líf sitt sé eigingjarn og sjálfselskur að skilja fólkið sitt eftir í sorg. Hvað segir þú við fólk sem segir svona?

„Mér finnst ekki rétt að segja að þetta sé eigingirni; þetta er andlegur sjúkdómur sem sumir því miður deyja úr. Við getum ekki sagt svona. Ég þakka fyrir að hafa ekki sjálf staðið í þessum sporum því þarna er svo gríðarlegur sársauki. Því er svo mikilvægt að opna umræðuna,“ segir hún og segir sjálfsvíg oft framin undir áhrifum hugbreytandi efna.

„Sumir fremja sjálfsmorð undir áhrifum en hefðu aldrei gert það allsgáðir. Aðrir taka líf sitt án þess að vera undir áhrifum og þá er sjúkdómurinn búinn að taka yfir.“

Sjálfsvíg í viku hverri

Finnst þér enn vera þöggun í samfélaginu um sjálfsvíg?

„Umræðan er aðeins að opnast en það hefur verið mikil þöggun og sjálfvíg hafa verið ofboðslegt tabú. Á síðustu tíu árum höfum við misst 446 manns og þú getur rétt ímyndað þér allan hópinn í kringum allt þetta fólk. Þetta er stórt samfélagslegt mál sem þarf að tala um. Því þótt einn fari sitja margir eftir í áfalli og sárum, missa úr vinnu og þurfa hjálp. Þannig hefur þetta mikil áhrif á allt samfélagið,“ segir hún og nefnir að 45 manns hafi svipt sig lífi í fyrra, eða einn á átta daga fresti.

„Ef við misstum þennan fjölda árlega í bílslysum myndum við tala meira um það. Svo er sláandi að sjá hvað margir ungir menn taka líf sitt. Það þarf virkilega að skoða og ræða um,“ segir Sigurbjörg og segist sjálf í sínu starfi bæði tala við fólk sem misst hefur ástvini og eins fólk sem langi ekki lengur að lifa.

Börnin með í myndinni

Með nýju heimildarmyndinni, Þöglum tárum, vonast Sigurbjörg til að sjá breytingar í samfélaginu.

„Myndin er í rauninni þríþætt. Einn hluti snýr að hinum þögla hópi aðstandenda. Síðan er talað við fólk sem reynt hefur að svipta sig lífi og að síðustu er fjallað um hvar hjálp sé að finna. Ég var ekki með neitt af þessu á hreinu þegar þetta dundi yfir okkur. Það er svo mikilvægt að myndin sýni báða hópana og fólk viti hvert það á að leita eftir hjálp. Ef ég get forðað einni fjölskyldu frá því sem við höfum farið í gegnum er það þess virði að hafa gert þessa mynd,“ segir Sigurbjörg og segir það hafa komið sér á óvart hversu tilbúið fólk var til að opna sig.

„Það hefur verið það mikil þöggun og tabú í kringum þetta að ég upplifði að fólki fannst gott að leggja þessu lið og geta mögulega hjálpað öðrum,“ segir Sigurbjörg, en börn hennar þrjú eru með í myndinni.

„Ég bauð þeim að vera með og þau þáðu það. Það var svo fallegt að þau sögðust vilja vera með því það gæti hjálpað öðrum. Svo enginn þyrfti að lenda í svona.“
Hvernig var fyrir þig að horfa á börnin þín svara erfiðum spurningum?

„Í myndinni eru þrettán viðmælendur og ég fékk Þóru Karítas vinkonu mína til að taka viðtöl við börnin mín. Ég treysti mér ekki í það og fannst líka rétt að annar gerði það. En mér fannst erfitt að hlusta á það sem þau sögðu og fór að gráta fyrst þegar ég sá myndina.“

Eins og það hafi gerst í gær

Nú eru liðin sex ár. Hvernig hefur ykkur tekist að vinna úr áfallinu?

„Það líður öllum betur í dag. Það eru sex ár síðan en samt alltaf eins og það hafi gerst í gær. Þetta er alltaf í huganum, en þetta er sár sem við höfum þurft að læra að umgangast og við erum að því. Ég hef sem betur fer verkfæri til að vinna með vegna reynslu minnar í vinnunni. Ég er mjög þakklát fyrir það. En þetta er rosaleg vinna og það þarf mikið að ræða þessi mál,“ segir Sigurbjörg og segir alla í fjölskyldunni hafa leitað sér hjálpar hjá ráðgjöfum og sálfræðingum.

Sigurbjörg hefur tekist á við sorgina og vill með heimildamyndinni …
Sigurbjörg hefur tekist á við sorgina og vill með heimildamyndinni opna á umræðuna um sjálfsvíg. mbl.is/Ásdís

„Sársaukinn er svo skrítinn í svona málum. Sorgin ferðast með manni,“ segir Sigurbjörg og nefnir að við alls kyns viðburði barnanna, eins og íþróttamót, fermingar eða afmæli, fylgi alltaf sú sorg að pabbinn skuli ekki vera til staðar.

„Við reynum að gera eitthvað skemmtilegt á afmælinu hans og rifjum þá upp gamlar minningar og borðum uppáhaldsmatinn hans. Það er svo nauðsynlegt að halda í það góða og skemmtilega og það hefur gert okkur öllum gott.“

Forvarnarmynd um sjálfsvíg

Nú þegar frumsýning myndarinnar er á næsta leiti er ekki laust við spenning hjá Sigurbjörgu, en myndin er sýnd 19. maí klukkan 21.00 í Sjónvarpi Símans.

„Ég er spennt en líka kvíðin. Ég er með þessari mynd af veikum mætti að reyna að hjálpa út frá því sem ég kann og því sem ég lenti í. Þetta er alla vega byrjunin því það er ekki til nein svona forvarnarmynd um sjálfsvíg. Í myndinni sér fólk að það er ekki eitt, því þetta er einmanalegt ferðalag. Sjálfsvíg á ekki að vera tabú,“ segir Sigurbjörg og segir gerð myndarinnar vissulega hafa reynt á sig.

„Þetta er kvikan mín; börnin mín. Þetta er það erfiðasta sem ég hef farið í gegnum í lífinu.“

Ítarlegt viðtal er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og í Dagmálsþætti á mbl.is. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »