Ekkert á því að sleppa takinu

Margir nýta góða veðrið á suðvesturhorni landsins til gönguferða.
Margir nýta góða veðrið á suðvesturhorni landsins til gönguferða. Morgunblaðið/Ómar

Hæðin á Grænlandi heldur áfram að stjórna veðrinu á landinu og ekki er útlit fyrir að hún sleppi tangarhaldi sínu á næstu dögum. Því munu norðaustlægar áttir vera ríkjandi eitthvað fram í vikuna með svölu veðri að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Áframhaldandi lítils háttar él norðaustan til í dag og á morgun, stöku skúr verður með suðurströndinni en annars að mestu bjart og hámarkshitinn mun daðra við tveggja stafa tölur á Suður- og Vesturlandi.“

Veðurhorfur í dag og næstu daga.

Norðan og norðaustan 5-13 m/s í dag en norðlæg eða breytileg átt, 3-8 á morgun. Lítils háttar él á Norðaustur- og Austurlandi, stöku skúrir sunnanlands en að mestu bjart norðvestan til.
Hiti 3 til 11 stig að deginum, mildast suðvestan til.

Á miðvikudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skúrir á Suðurlandi en annars skýjað með köflum og þurrt. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast suðvestan til.

Á fimmtudag og föstudag:
Breytileg átt, 3-8 m/s og víða bjart veður en skúrir sunnanlands. Hiti 1 til 9 stig, svalast norðaustan til.

Á laugardag:
Suðlæg átt með smáskúrum sunnan- og vestanlands en annars þurrt. Hiti 4 til 10 stig að deginum.

Á sunnudag (hvítasunnudag):
Austlæg átt, skýjað með köflum og smá væta suðaustan til en annars þurrt. Hiti breytist lítið.

Á mánudag (annan í hvítasunnu):
Útlit fyrir austlæga átt með stöku skúr sunnan og vestan til.

Spá gerð: 17.05. 2021 kl. 20:42. Gildir til: 24.05. 2021 kl. 12:00.

mbl.is