Ógilda ákvörðun um að hafna nafninu Lúsífer

Ingólfur Örn Friðriksson vill skipta millinafninu sínu Örn út fyrir …
Ingólfur Örn Friðriksson vill skipta millinafninu sínu Örn út fyrir Lúsífer. Mynd/Aðsend

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ógilt úrskurð mannanafnanefndar sem hafði hafnað Ingólfi Erni Friðrikssyni að fá nafnið Lúsífer skráð sem millinafn. Var niðurstaða nefndarinnar byggð á þeim forsendum að nafnið sé eitt af nöfnum djöfulsins og þar með „ljóst að það geti orðið nafnbera til ama.“

Taldi héraðsdómur að verulega hafi skort á að nefndin tæki tillit til mismunandi merkingar nafnsins og að ekki hafi verið leitast við að leggja mat á hvaða þýðingu það hefði í huga almennings í dag.

Ingólfur ræddi við mbl.is í fyrra í kjölfar úrskurðar nefndarinnar. Sagðist hann hafa verið skráður í Church of Satan síðan árið 2001 og að hann hafi íhugað nafnabreytinguna í mörg ár út frá lítilli hefð safnaðarbarna að taka upp nöfn sem tengjast satanisma. Byggði hann meðal annars á því í beiðni sinni til nefndarinnar og í rökstuðningi fyrir héraðsdómi að nafnið væri eitt lykilnafna í hans trúarbrögðum.

Fór fyrst með málið fyrir umboðsmanns Alþingis

Áður en Ingólfur fór með málið fyrir dómstóla hafði hann sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Niðurstaða umboðsmanns var að embættið hefði ekki forsendur til að fullyrða um annað en að hlutlægt séð hefði mannanafnanefnd byggt á sjónarmiðum sem teldust málefnaleg og lögmæt. Hvað varðaði huglægt mat nefndarinnar að nafnið Lúsífer gæti orðið nafnbera að ama þyrfti að líta til athugasemda í lögskýringargögnum. Þá var einnig tekið fram að rökstuðningur nefndarinnar væri afar takmarkaður og bundinn við að segja að nafnið væri „eitt af nöfnum djöfulsins“.

Í rökstuðningi Ingólfs fyrir héraðsdómi fer hann yfir sögu nafnsins Lúsífer og segir hana síður en svo nafnbera til ama. Þá sé meðal annars nafnið Ári á mannanafnaskrá, þrátt fyrir að það merki púki eða illur andi og sé jafnvel notað sem blótsyrði í forminu „árans“. Þá hafi mörg orð fengið neikvæða tengingu í gegnum tíðina og nefnir Ingólfur meðal annars Adolf og Ívan og vísar til Adolfs Hitlers og Ívans grimma. Þau séu engu að síður á mannanafnaskrá og séu ekki talin nafnberum til ama. Jafnframt sé nafnið Loki á mannanafnaskrá þrátt fyrir að hann sé þekktur fyrir fátt annað en illvirki.

Í rökstuðningi ríkisins er vísað til þess að nafnið hafi mjög neikvæða merkingu og því mótmælt að það skerði trúfrelsi Ingólfs. Þá er vísað í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu sem hafi ekki viðurkennt ótakmarkaðan rétt manna til að velja sér nafn.

Nafnið hefur víðtæka merkingun

Í niðurstöðu héraðsdóms er vísað til þess að Ingólfur hafi ekki haldið því fram að lög um mannanafnanefnd brytu í bága við stjórnarskrá eða mannréttindasáttmálann. Fremur teldi hann að úrskurðurinn sjálfur væri ekki í samræmi við lög og að nefndin hafi ekki litið til þeirra sjónarmiða sem hún ætti að gera.

Þá er vísað í lögskýringargögn með mannanöfn, en þar er tekið fram að þó ákvæði sem banni nöfn sem séu „ósiðleg, niðrandi og meiðandi“ sé mikilvægt til að gæta hagsmuna barna, þá sé ákvæðið vandmeðfarið þar sem erfitt sé að leggja hlutlægt mat á ama. Því þurfi að passa að því sé „beitt mjög varlega,“ en ákvæðinu hafði aðeins verið beitt tvívegis, til synjunar kvenmannsnöfnunum Villimey og Rist. Sérfróður meðdómari hafi einnig bent á að orðið lúsífer hafi marþætta merkingu og vísi jafnvel til fisks af ættkvísl skötuselsættar, ljósbera, morgunstjörnunnar (Venusar) og jafnframt hins vonda, djöfulsins. Tekið er undir að vissulega geti tilvísun í djöfulin talist neikvæð, en að nefndin hafi ekki tekið tillit til mismunandi merkingar nafnsins og leitast við að leggja mat á þýðingu þess hjá almennigni í dag. Er fyrri úrskurður því ógiltur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert