„...það var ég sem átti hugmyndina“

Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni.
Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni.

Skipstjórinn Guðmundur Jónsson er ekki raunverulegur höfundur greinar sem hann fékk birta undir sínu nafni í Kjarnanum síðasta haust. Páll Steingrímsson segir sig og Þorbjörn Þórðarson hafa skrifað greinina í sameiningu.

Guðmundur Jónsson, skipstjóri hjá Samherja, sendi inn greinina „Hálfkveðnar vísur Kjarnans“ til birtingar á síðum Kjarnans í byrjun september í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri grein á Kjarnanum og vísar þar í samskiptagögn innan úr Samherja sem sýna fram á að Guðmundur, sem í dag er orðinn skipstjóri á nýjasta skipinu í flota Samherja, Vilhelm Þorsteinssyni, skrifaði ekki umrædda grein.

Höfundar hennar, samkvæmt skipstjóranum Páli Steingrímssyni, eru hann sjálfur og lögmaðurinn og almannatengslaráðgjafinn Þorbjörn Þórðarson. Þetta kemur fram í spjallþræði á milli þeirra Páls og Örnu McClure, lögmanns Samherja.

„...það var ég sem átti hugmyndina að þeirri grein og skrifaði hana með Þorbirni...“ sagði Páll við Örnu þegar þau ræddu um þátttöku annarra skipstjóra en Páls í að halda uppi vörnum fyrir fyrirtækið á opinberum vettvangi. Arna minntist þá á að Guðmundur hefði skrifað eina grein og það væri „meira en margur“. Páll hélt því í kjölfarið til haga að greinin væri í reynd hans smíð og Þorbjörns í sameiningu.

Umfjöllun Kjarnans í heild

mbl.is