„Sjúklingurinn er heilbrigðiskerfið “

Vilhjálmur Ari Arason.
Vilhjálmur Ari Arason. mbl.is/Sigurður Bogi

Vilhjálmur Ari Arason, 65 ára læknir á bráðamóttöku Landspítalans, hefur sagt upp eftir 40 ára starf. Hann segir neyðarástand ríkja á deildinni þar sem fjöldi lækna segi upp og álag auki líkur á mistökum. Hann kveðji þó samstarfsmenn sína í mikilli sátt og samlyndi.

Vilhjálmur hóf störf á deildinni 1982 og hefur séð tímanna tvenna í þar. Álagið hafi þó aukist á síðustu árum og þrátt fyrir skammvinn rólegheit í kringum Covid-faraldurinn. Nú streymi sjúklingar aftur inn af fullum þunga og mönnun deildarinnar svari því engan veginn.

Sérfræðilæknar sinni nú grunnvinnu í auknum mæli

„Síðastliðin ár hefur verið jöfn og þétt aukning á komu sjúklinga og á sama tíma hafa stöður sérfræðilæknar verið undirmannaðar. Það eru læknarnir sem bera ábyrgð á þessari daglegu vinnu og ég sé það bara á eigin skinni. Áður var maður með unglækna sem unnu grunnvinnuna á meðan sérfræðilæknar voru frekar ráðgefandi og að kenna. Í dag er svo komið að sérfræðingar þurfa að vinna grunnvinnuna að miklu leyti sjálfir,“ segir Vilhjálmur

Hann rifjar upp ítrekaðar yfirlýsingar yfirvalda um mikilvægi þess að vernda og styrkja heilbrigðiskerfið í heimsfaraldrinum en segir þær nú skjóta skökku við þar sem ástandið hafi aldrei verið verra en það er akkúrat núna. „Við sérfræðingarnir höfum verið að benda á að það ríkir neyðarástand á bráðamóttökunni í dag. Við erum að sigla inn í sumarið í verri stöðu en nokkur sinni fyrr.“

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Ómar

Talar fyrir daufum eyrum

Vilhjálmur segir heillbrigðisráðherra ekki hafa veitt sér áheyrn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. „Mín skoðun er sú að það sé spírallinn í stjórnsýslunni sem veldur því að ekki sé brugðist við. Það eru þessir millistjórnendur sem buffera alltaf vandann og ráðherra snýr sér undan og neitar að tækla vandann. Ég hef reynt að ná til Svandísar í tvö ár með póstum en hún vísar þessu frá, landlæknir hefur heldur ekki sýnt þessu áhuga. Þeirra aðferðir eru að láta stjórnsýsluspíralinn bara vinna þetta eins og skipuritið segir til um.“

Hann lýsir einnig áhyggjum af þeirri áhættu sem heilbrigðisstarfsfólk er komið í vegna mistaka og málaferla í kjölfar þeirra. „Það hafa orðið mjög sorgleg tilvik sem tengjast náttúrulega þessu gríðarlega álagi og má að hluta til rekja til þreytu starfsmanna. Við erum að útsetja okkur þannig fyrir gríðarlegri áhættu því ein mistök geta skilið á milli lífs og dauða. Það má ekkert út af bregða, jafnvel í venjulegri afgreiðslu.“

Ber ábyrgð á 7.000 sjúklingum á ári

„Að meðaltali ber ég ábyrgð á 7.000 sjúklingum á hverju ári. Þá má velta því fyrir sér hverjar líkurnar á að mistök komi upp í þeim fjölda?“ Spyr Vilhjálmur sem segist þó sjálfur aldrei hafa orðið svo ólánssamur, þetta sé samt það ógnarský sem þyrmir hvað mest yfir honum og hans kollegum.

„Það sem mér finnst ógnvænlegast er framtíðarsýnin, við sem erum eldri munum fara af sviðinu og eitthvað allt annað tekur við. Ég vil ekki standa eftir einn með hrunið kerfi og málsókn á bakinu.“

Starf á heilsugæslu næst á dagskrá

Vilhjálmur segist kominn með starf hjá heilsugæslu enda er hann ennþá hraustur og vinnuglaður.

 Hann segir vaktirnar á bráðamóttökunni þó hafa tekið verulega á og hann, svo mjög að oft þurfi hann að liggja á milli vakta til að safna kröftum.

Á læknum hvíli skylda til að bjarga heilbrigðiskerfinu

„Ég ber ábyrgð sem læknir og sver eið. Hippókratesareiðurinn gengur út á það að sniðganga aldrei að geta bjarga mannslífi, það er inni í læknaeiðnum að við verðum að bregðast við ógn og hættu. Ef sjúklingurinn er heilbrigðiskerfið eru sömu skyldur, við megum ekki þegja yfir því sem við sjáum sem aðsteðjandi vandi, við verðum að bregðast við og láta í okkur heyra. Það mætti segja að það sé það sem ég er að gera, okkur ber skylda til að bregðast við ástandinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert