Flugeldamengun ekki réttlætanleg

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er réttlætanlegt að fylla borgina af skaðlegri loftmengun líkt og gengur og gerist um áramót að sögn Hjalta Más Björnssonar, yfirlæknis bráðamóttöku Landspítalans. Skaðleg loftmengun af völdum flugelda getur valdið langvarandi heilsutjóni og hafa heilbrigðisyfirvöld miklar áhyggjur af stöðunni.

Hjalti stendur nú að úrvinnslu upplýsinga úr komuskráningu á bráðamóttöku Landspítala vegna flugeldaslysa, auk þess sem könnun hefur verið lögð fyrir lækna um algengi og alvarleika þess að sjúklingar verði fyrir skaðlegum áhrifum loftmengunar af völdum flugelda.

Alvarlegum slysum fer fækkandi en loftmengun enn áhyggjuefni

Á árunum 2011 til janúar 2021 hafa alls 114 einstaklingar leitað á bráðamóttöku Landspítalans vegna flugeldaslysa. Í langflestum tilfellum er um að ræða brunaáverka og vægari slys en meirihluti þessara einstaklinga útskrifast eftir mat og meðferð á bráðamóttökunni.

Hjalti segir mengun af völdum flugelda geta haft langvinn áhrif …
Hjalti segir mengun af völdum flugelda geta haft langvinn áhrif á heilsu einstaklinga. Ljósmynd/Sigríður Soffía Níelsdóttir

Alvarlegum slysum og augnáverkum hefur farið fækkandi undanfarin ár en Hjalti segir að mögulega megi rekja það til þess að fólk sé duglegra að nota hlífðargleraugu auk þess sem hinar svokölluðu tívolíbombur voru teknar af markaði.

„Það er ljóst að þótt flugeldasýningar séu fallegar þá fylgja þeim bæði slys og, það sem verra er, fylgir þeim gríðarlega skaðleg loftmengun um hver áramót þar sem  mengunin fer margfalt yfir það sem er talið óhætt fyrir fólk.“

Flugeldamengun veldur langvarandi heilsutjóni

Hluti af þessum eiturefnum sem fylgja notkun flugelda valda langtímaáhrifum og geti þau safnast upp og valdið fólki heilsutjóni sem kemur kannski fram seinna. Segir Hjalti tengsl ríkja milli mikillar mengunar um áramót og fjölgunar sjúklinga á bráðamóttökunni með öndunarfæraeinkenni.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var á Íslandi hefur meirihluti lækna og læknanema orðið var við að loftmengun vegna flugelda hafi skaðleg áhrif á heilsu sjúklinga þeirra. Ljóst sé, út frá erlendum rannsóknum og reynslu Landspítalans, að loftmengunin hefur bráð skaðleg áhrif á fólk með öndunarfærasjúkdóma.

„Við heyrum fólk með öndunarfærasjúkdóma lýsa því að það sé í hálfgerðu stofufangelsi í tengslum við þennan tíma þegar verið er að skjóta flugeldum vegna þess að það treystir sér ekki út úr húsi. Það er ekki alveg rétt gagnvart því fólki,“ segir Hjalti.

Ráðlegt að takmarka flugeldanotkun

Telur Hjalti ráðlegt að skoða leiðir til að takmarka notkun flugelda. „Það er mitt álit alla vega að það sé of mikið sprengt af flugeldum um áramótin og það þurfi að skoða leiðir til að draga úr þessari gífurlegu mengun sem notkun flugelda fylgir á Íslandi.“

Hjalti heldur erindið „Heilsufarsleg áhrif flugelda“ á Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands í dag. Áhugasamir geta fylgst með streymi frá ráðstefnunni.

Hjalti telur ráðlegt að takmarka flugeldanotkun með einhverjum hætti.
Hjalti telur ráðlegt að takmarka flugeldanotkun með einhverjum hætti. AFP
mbl.is