Forsetahjónin heimsóttu Herdísarvík

Elliði Vignisson bæjarstjóri Þorlákshafnar og Gestur Kristjánsson forseti bæjarstjórnar tóku …
Elliði Vignisson bæjarstjóri Þorlákshafnar og Gestur Kristjánsson forseti bæjarstjórnar tóku á móti forsetahjónunum í Herdísarvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú fóru í opinbera heimsókn í Ölfus í dag. Um er að ræða eina fyrstu opinberu heimsókn þeirra hjóna síðan heimsfaraldurinn skall á. Fyrsti viðkomustaður heimsóknarinnar var í Herdísarvík í Selvogi, þar bjó skáldið Einar Benediktsson um áratug með Hlín Johnson. Hús Einars er í dag í eigu Háskóla Íslands.

„Það var sérlega gaman að hefja heimsóknina í Herdísarvík þar sem að Einar Benediktsson, sá mikli skáldjöfur átti sín síðustu æviár í öruggu skjóli Hlínar Johnson,“ sagði forsetinn í samtali við blaðamann mbl.is.

Hús Einars Benediktssonar í Herdísarvík í Selvogi.
Hús Einars Benediktssonar í Herdísarvík í Selvogi. mbl.is/Kristinn Magnússon
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú skrifa …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú skrifa í gestabók í húsi Einars Benediktssonar í Herdísarvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víkin ber nafn sitt af munnmælasögu af Herdísi tröllskessu sem var systir Krýsu og segir sagan að ófriðurinn á milli þeirra hafi bitnað á landgæðum sveitanna í kringum Krýsuvík og Herdísarvík. Jörðin státar af þúsund ára búsetu en nú í dag stendur þar lítið annað en hús Einars.

Þá skrifuðu hjónin einnig í eina af gestabókunum sem standa í húsi Einars, þá er gaman að segja frá því að í þeirri gestabók leyndist einnig nafn ömmu forsetans, sem hafði heimsótt staðinn fyrir þó nokkrum tíma.

„Þarna finnur maður ægimátt náttúrunnar og sögunnar í hverju horni, það væri gaman að geta gert staðinn upp og minnast þannig arfleifðar Einars,“ sagði forsetinn.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert