Krónan verði tengd við evruna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og þingmaður, skaut á þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Kallaði hún þá stjórnarandstöðu sem einstaka aðilar veittu sóttvarnapólitíkinni „einhver misheppnuðustu stjórnarandstöðuupphlaup sem sögur fara af“.

Þorgerður Katrín lagði áherslu á að nú þyrfti að auðvelda atvinnulífinu að hlaupa hraðar og byggja undir samkeppnishæfni þess. Hún benti á að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mætti sjá 50 milljarða króna gat í nýrri fjármálaáætlun án þess að þess væri getið hvernig því gati yrði lokað. Ríkisstjórnin hafi gefist upp á að fjármagna halla ríkissjóðs með langtímalánum á lágum vöxtum og án gengisáhættu. Þorgerður telur það draga úr krafti atvinnulífsins þegar gjaldeyrishöft eru tekin fram yfir frelsi í viðskiptum. Þorgerður sagði þetta vera atriði sem ríkisstjórnin vilji ekki ræða.

„Okkur dugar ekki að ná aftur verðmætasköpuninni frá 2019. Við þurfum að ná mun meiri hagvexti, strax, til að standa vörð um velferðarkerfið. Öll þessi atriði sem ríkisstjórnin vill ekki ræða koma í veg fyrir að atvinnulífið geti hlaupið jafn hratt og við þurfum á að halda.“

Þorgerður vill víkka út EES-samninginn og semja við Evrópusambandið um að tengja krónuna við evru með sama hætti og Danir gera. Þannig telur hún að stöðugleiki og viðskiptafrelsi verði best tryggt.

„Einhæfara, óskilvirkara, ójafnara og dýrara heilbrigðiskerfi“

Lokunaráform Domus Medica voru tekin fyrir í ræðu Þorgerðar til marks um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá og gerði engar athugasemdir þegar þrengt var að einkarekstri í heilbrigðisgeiranum.

„Ef einhæfara, óskilvirkara, ójafnara og dýrara heilbrigðiskerfi er fórnarkostnaðurinn fyrir meintan pólitískan stöðugleika, þá er sá pólitíski stöðugleiki ekki mikils virði,“ sagði Þorgerður Katrín um stjórnarsamstarf ríkisstjórnarflokkanna.

Þorgerður tók einnig mál Samherja fyrir í ræðu sinni en henni þótti sorglegt að fylgjast með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. Sakleysisleg orð um „óviðeigandi“ og „óeðlilegt“ athæfi gengisfelli alvöruna í málinu enda sé samsæri stórfyrirtækis gegn blaðamönnum árás á lýðræðislega umræðu.

Að lokum greindi Þorgerður frá stefnumálum Viðreisnar og bar þar hæst að taka upp evruna og gera tímabundna samninga um auðlindir. Einnig að gera sálfræðiþjónustu hærra undir höfði, bæta menntakerfið og tryggja að námslán nægi til grunnframfærslu ungs fólks. 

mbl.is

Bloggað um fréttina