Beið í 723 daga á spítalanum

Meðaldvalartími sjúklinga var um 20 klukkustundir í mars.
Meðaldvalartími sjúklinga var um 20 klukkustundir í mars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðaldvalartími sjúklinga á bráðamóttöku Landspítala er um 20 klukkustundir. Aftur á móti er miðað við að dvalartíminn sé sex klukkustundir. Þetta kemur fram í minnisblaði landlæknis frá 7. maí um úttekt á stöðu innan bráðamóttökunnar. Tölfræðin er fengin úr mars síðastliðnum.

„Staðan hefur lítillega batnað frá því í janúar 2020 þegar biðtíminn var 25,8 klst. Þegar embættið heimsótti deildina biðu 19 sjúklingar á göngum deildarinnar. Ljóst er að þegar álag er sem mest er ekki hægt að tryggja faglegar kröfur og réttindi sjúklinga skv. lögum. Aðal ástæða þessa er sem fyrr sú að ekki er hægt að útskrifa sjúklinga með gilt færni- og heilsumat af bráðalegudeildum þar eð hjúkrunarrými skortir,“ segir í minnisblaðinu.

Embætti landlæknis
Embætti landlæknis mbl.is/Kristinn Magnússon

EIns og hefur verið fjallað um undanfarna daga í fjölmiðlum hefur neyðarástandi verið lýst yfir á bráðamóttökunni. Framkvæmdastjórn Landspítala hefur fundað síðustu daga vegna stöðunnar.

Ekki nægileg endurnýjun í grein sérfræðilækna

Í minnisblaði landlæknis segir að helstu viðbrögð við auknu álagi hafi verið verið að þrýsta enn frekar á útskriftir af legudeildum og innlagnir umfram skilgreind opin rými á hverri deild. 

Fundir framkvæmdastjórnar Landspítalans hafa hins vegar helst snúist um viðbragð til þess að mæta manneklu á bráðamóttökuni, þá sérstaklega á meðal lækna.

Í minnisblaðinu segir að fækkun hefur orðið meðal sérfræðilækna og fyrir því séu ýmsar ástæður en ekki hefur verið nægjanleg endurnýjun í sérgreininni.

„Horfir það vonandi til betri vegar nú þegar sérnámið fer fram að mestu á Íslandi.“

Félag bráðalækna sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í síðustu vegna stöðunnar og sagði Landspítala og íslenska ríkið vera að þvinga fólk til vinnu við óviðunandi aðstæður.

Mannekla er á bráðamóttökunni, sérstklega á meðal lækna.
Mannekla er á bráðamóttökunni, sérstklega á meðal lækna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðalbiðin 94 dagar

Í minnisblaðinu segir að 8. mars hafi samtals 89 einstaklingar með gilt færni- og heilsumat á Landspítala beðið eftir flutningi á hjúkrunarheimili. Þar af voru 24 á bráðalegudeildum Landspítala, á Vífilstöðum voru 46 sjúklingar, 17 voru á Landakoti, og tveir lágu á Vesturlandi.

Meðalbið einstaklinga sem voru inniliggjandi á Landspítala og biðu eftir hjúkrunarrými voru 94 dagar. Sá sem hafði beðið lengst hafði þá legið inni í 723 daga á spítalanum.

Í ályktun og ráðleggingum landlæknis segir að meðaldvalartími sjúklinga á bráðamóttökunni sem bíða innlagnar sé enn langt umfram þau mörk og er það óviðunandi.

„Það er ályktun landlæknis, líkt og áður hefur komið fram, að sú heilbrigðisþjónusta sem veitt er á bráðamóttöku Landspítala þegar álag er sem mest uppfylli ekki í öllum tilvikum faglegar kröfur. Hvorki húsnæði né mönnun uppfyllir faglegar lágmarkskröfur miðað við þá starfsemi sem þar fer nú fram og ljóst er að ekki er hægt að tryggja ýmis ákvæði sem tilgreind eru í lögum um réttindi sjúklinga.“

mbl.is