Fór í göngutúr eftir að hann vann 1,2 milljarða

Heppinn fjölskyldufaðir á fertugsaldri hefur gefið sig fram við Íslenska getspá eftir að hafa hreppt langstærsta lottóvinning Íslandssögunnar í gærkvöldi, eða rúmlega 1.270 milljónir króna.

Frá þessu greinir fyrirtækið í tilkynningu. Segir þar að miðaeigandinn búi á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrstu viðbrögð hans í gærkvöldi munu hafa verið þau að fara í góðan göngutúr.

Skynsemin að leiðarljósi

„Að göngunni lokinni deildi hann fréttinni með konunni sinni en áætlar að segja foreldrum og nánustu fjölskyldu góðu fréttirnar í eigin persónu á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.

„Aðspurður segist vinningshafinn enn ekki hafa gert upp við sig hvernig haldið verður upp á stóra vinninginn en hann segist munu hafa skynsemina að leiðarljósi og hefur þegar þegið boð Íslenskrar getspár um fjármálaráðgjöf.“

Eins og fram hefur komið var 2. vinningur einstaklega hár í gær vegna kerfisbreytinga sem ætlað er að auka líkur á stórum vinningum. Hámark hefur verið sett á fyrsta vinning, rúmlega 3.600 milljónir, og því stækkar 2. vinningur nú hraðar en ella. Þannig má búast við að í næstu viku verði hann um það bil 370 milljónir króna en stærðin hleypur venjulega á nokkrum tugum milljóna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert