Stórafmæli fundar borgarstjórnar með ungmennum

Ungmenni funda á ný með borgarstjórn á föstudag
Ungmenni funda á ný með borgarstjórn á föstudag mbl.is/Árni Sæberg

Ungmenni funda í dag með borgarstjórn í tuttugasta sinn. Til umfjöllunar á fundi borgarstjórnar eru tillögur frá ungmennum í Reykjavík um málefni sem á þeim brenna og þeim finnst að betur megi fara í borginni. Fundurinn hefst klukkan 15 og verður streymt frá fundinum. 

Reykjavíkurborg var eitt fyrsta sveitarfélagið á landinu til að stofna ungmennaráð og er fundur ungmennaráða borgarinnar með borgarstjórn orðinn að árvissum viðburði. Þetta er tuttugasta árið í röð sem fundurinn fer fram og því um að ræða stórafmæli viðburðarins.

Margt komist í framkvæmd

Margar tillögur ungmennaráða borgarinnar hafa í gegnum tíðina komist í framkvæmd og hafa meðal annars skilað sér í bættum strætósamgöngum, bættri kynfræðslu, innleiðingu fjármálalæsis á grunnskólastigi og ókeypis túrvörum í grunnskóla og félagsmiðstöðvar.

Í ár verða átta tillögur ungmenna kynntar á fundinum og snúa þær meðal annars að bættu hjólastólaaðgengi, aukinni fræðslu um ofbeldisvarnir og að því að gera Reykjavík að plastlausri borg. Einnig er lagt fram að afgreiðslutími tillagna sem ungmenni leggja fyrir borgarstjórn verði styttur og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði aðgengilegt.

Ungmenni úr Grafarvogi leggja til að Reykjavíkurborg verði plastlaus borg.
Ungmenni úr Grafarvogi leggja til að Reykjavíkurborg verði plastlaus borg. Ljósmynd/Wikimedia
mbl.is