Blíður villingur bjargar fuglum

Ágúst Halldórsson fuglabjargvættur.
Ágúst Halldórsson fuglabjargvættur. Mynd/Ágúst Halldórsson.

Ágúst Halldórsson, 36 ára gamall Vestmannaeyingur, hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum fyrir fuglabjörgunaraðgerðir sínar. Hann lýsir sjálfum sér sem blíðum villingi með ímyndunarafl út fyrir endimörk alheimsins.

Sem ungur Eyjapeyi fór Ágúst reglulega á lundaveiðar en hefur nú lagt lundaháfinn á hilluna. Í dag er hann þriggja barna faðir, hættur að veiða fugla og stundar það frekar að bjarga þeim. Það var svo átta ára gamall sonur Ágústs, Sveinn Jörundur, sem hvatti hann til að sýna frá björgunaraðgerðunum á hinum vinsæla samfélagsmiðli TikTok og nú fylgjast rúmlega 1.600 manns með ævintýrum Ágústs á miðlinum.

„Það var eiginlega syni mínum að þakka. Hann bað mig að gera þetta TikTok. Sagði það vera eina vitið,“ segir Ágúst.

Gæfur Grænlandsfálki

Fram að þessu hefur Ágúst bjargað fjórum fuglum. Tveir þeirra voru fálkar, þar af einn Grænlandsfálki.

„Grænlandsfálkann fann ég þegar ég var við vinnu úti á sjó, á Álsey VE, vestan við Snæfellsnes. Sá hafði örmagnast og sat á stefni bátsins. Hann var alveg ógeðslega flottur en alveg við það að drepast þannig að ég veiddi hann með því að læðast aftan að honum og kasta yfir hann neti. Síðan náði ég að koma ofan í hann nautakjöti og lunda og hann braggaðist svona hrikalega vel. Hann var byrjaður að setjast á öxlina á mér og fór með mér í göngutúra í garðinum hér heima. Við nefndum hann í höfuðið á Árna Johnsen og enduðum svo á að fara heim til Árna þar sem fálkanum var sleppt við hátíðlega athöfn. Það mættu um 50 manns að horfa á. 

Ágúst hefur bjargað tveimur fálkum sem var vart hugað líf.
Ágúst hefur bjargað tveimur fálkum sem var vart hugað líf. Mynd/Ágúst Halldórsson

Síðan fann pabbi minn, sem er lögreglumaður hér í Eyjum, annan fálka niðri á bryggju og kom með hann til mín. Sá hafði verið að reyna að veiða fýl sem hefur svo ælt á hann. Flughæfni fálkans var orðin mjög skert eftir lýsisógeðið sem lagðist yfir allt fiðrið á honum. Við þurftum að þrífa hann nokkrum sinnum til að ná öllu lýsinu af honum en með hjálp starfsmanna SeaLife varð hann mjög flottur eins og forveri hans,“ segir Ágúst og vísar þar til góðgerðarsamtakanna Sealife Trust sem stóðu að flutningi á tveimur mjöldrum til Vestmannaeyja.

Að sögn Ágústs braggaðist sá fálki vel og var á endanum sleppt líkt og þeim fyrri.  

Bragi og Þór

Hinir tveir fuglarnir voru lundar. Annan þeirra fann Ágúst þegar hann var að sækja egg í Hellisey. Sá fékk nafnið Bragi en hann lifði því miður ekki lengi vegna þess hve laskaður hann var. Þegar blaðamaður innti eftir því hvað gæti mögulega hafa komið fyrir hann nefnir Ágúst tvær mögulegar ástæður.

„Þeir geta bara skollið á hlutum þegar þeir eru á flugi og bólgnað svo mikið að þeir verða bjargarlausir. Hitt er svo þegar þeir rífast um holuna sína þegar þeir koma til baka af veiðum; bíta hvor annan í gogginn, veltast um og detta stundum niður 50 metra há björg og lenda síðan bara á jörðinni og meiðast. Þannig var með lundann Braga. Hann var lamaður og gat ekki staðið.“ 

Nýlega var svo bankað á dyrnar heima hjá Ágústi. Þar voru tveir ungir herramenn, Hafþór og Sæþór, komnir til að færa honum annan lunda. Sá var í aðeins skárra ásigkomulagi en Bragi. Lundinn var nefndur Þór í höfuðið á drengjunum tveimur sem fundu hann. „Ég sprautaði lýsi upp í hann og gaf honum loðnu. Hann var fljótur að átta sig á því hvernig átti að éta þetta og það sást mikill munur á honum eftir aðeins fjóra daga. Hann var bara orðinn rosalega flottur þegar við slepptum honum.“ 

Stundum þarf að sleppa

Þegar Ágúst er inntur eftir því hvort ekki sé erfitt að sleppa fuglunum er hann tvístígandi í svari.

„Já og nei. Stundum þarf bara að sleppa takinu. Það er þeim fyrir bestu. Þeir mega ekki vera of lengi hjá okkur því þá byrja vöðvarnir að rýrna og þeir ná ekki almennilegu flugi. Þetta er bara eins og með krakkana; það er fínt að sleppa þeim að heiman þegar þau eru á milli 18 og 22 ára. Ég nenni ekki að hafa þau heima til 38 ára, ennþá spyrjandi mig hvað verði í matinn.“



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert