Stærsta útskrift HA frá upphafi

Handabandið er enn ekki tekið við olnbogabandinu.
Handabandið er enn ekki tekið við olnbogabandinu. Ljósmynd/Daníel Starrason

Háskólahátíð Háskólans á Akureyri fór fram í dag og í gær, í þremur athöfnum. 543 kandídatar brautskráðust af þremur fræðasviðum og er það stærsti útskriftarárgangur háskólans frá upphafi. Þar af 367 í grunnnámi og 167 í framhaldsnámi.

Í gær voru brautskráðir kandídatar af framhaldsnámsstigi og í dag voru kandídatar í grunnnámi brautskráðir í tveimur athöfnum. 

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, komst ekki hjá því að fjalla um veturinn sem skráður verður í mannkynssöguna sem einn af verri vetrum sögunnar – þó ekki vegna vetrarharðinda. Þakkaði Eyjólfur öllum sem komu að úrlausn verkefna í vetur hjartanlega fyrir faglegt og óeigingjarnt vinnuframlag sem hann sagði hafa tekist með eindæmum vel. 

Forréttindi að vera glöð í vinnunni

Heiðursgestur Háskólahátíðar var Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari og flutti hún erindi til kandídata. Í erindi sínu hvatti Kolbrún kandídata til að setja markið hátt og stefna að því að vera glöð í vinnunni. 

„Ég lít á það sem mikil forréttindi að gera einmitt þetta. Vinna við það sem hefur verið minn draumur frá því að ég hóf laganám,“ sagði Kolbrún um leið og hún óskaði kandídötum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn kom hún að mikilvægi þess að geta skilið á milli vinnu og einkalífs.

„Því það er nú einu sinni þannig að störf koma og fara en fjölskyldan, vinir og heilsan okkar er eitthvað sem við viljum halda í,“ bætti hún við. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. Ljósmynd/Daníel Starrason

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í grunnnámi hlutu eftirtaldir:

  • Hjúkrunarfræðideild - Elín Jakobína Valgerðardóttir hlaut viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir hæstu meðaleinkunn í hjúkrunarfræðum. Sóley Diljá Stefánsdóttir hlaut viðurkenningu frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands eystra fyrir hæstu einkunn í samfélagshjúkrun.
  • Iðjuþjálfunarfræðideild - Sigfríður Arna Pálmarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, endurhæfingardeild Kristnesi, fyrir hæstu meðaleinkunn í iðjuþjálfun
  • Félagsvísindadeild - Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, BA í lögreglu- og löggæslufræði og Hallgrímur Helgi Hallgrímsson, lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn – diplóma
  • Kennaradeild – Berglind Karlsdóttir, B.Ed. í kennarafræði
  • Lagadeild – Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, BA í lögfræði
  • Sálfræðideild – Þóra Katrín Erlendsdóttir, BA í sálfræði
  • Auðlindadeild – Theodór Óskar Þorvaldsson, BS í sjávarútvegsfræði
  • Viðskiptadeild – Guðrún Lárusdóttir, BS í viðskiptafræði og Guðrún Helga Finnsdóttir, BS í tölvunarfræði

KEA verðlaunaði kandídata í grunnnámi fyrir hæstu meðaleinkunn fræðasviðs. Í ár hlutu eftirtaldir viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn:

  • Heilbrigðisvísindasvið: Elín Jakobína Valgerðardóttir, BS í hjúkrunarfræði.
  • Hug- og félagsvísindasvið: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, BA í lögreglu- og löggæslufræði.
  • Viðskipta- og raunvísindasvið: Theodór Óskar Þorvaldsson, BS í sjávarútvegsfræði.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í framhaldsnámi hlutu eftirtaldir:

  • Eyrún Björg Þorfinnsdóttir frá heilbrigðisvísindasviði fyrir hæstu einkunn í heilbrigðisvísindum og hæstu einkunn í framhaldsnámi við háskólann þetta skólaár.
  • Andrea Björt Ólafsdóttir fékk viðurkenningu frá Iðjuþjálfafélagi Íslands fyrir hæstu einkunn í iðjuþjálfun, viðbótardiplóma til starfsréttinda.

Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn hyrna hafa undanfarin ár veitt viðurkenningu fyrir framúrskarandi ritgerðir sem fjalla um aukin réttindi kvenna og eða jafnrétti.

  • Birgitta Birgisdóttir og Kamilla Einarsdóttir fengu viðurkenningu frá Zontaklúbbi Akureyrar fyrir ritgerð sína í félagsvísindum. Titill ritgerðarinnar er „Mjög dýrmætt er að sjá hvað þær ná oft miklum tökum á eigin lífi, vaxa og dafna og öðlast trú á eigin getu“
  • Aija Burdikova fékk viðurkenningu frá Zontaklúbbnum Þórunni hyrnu fyrir meistararitgerð sína í félagsvísindum. Titill ritgerðarinnar er „Eastern European women in Akureyri“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert