Búið að ráða í flest sumarstörf fyrir stúdenta

Gengið hefur verið frá ráðningu í flest störf í tengslum við atvinnuátak stúdenta í sumar, segir Margrét Lind Ólafsdóttir hjá Vinnumálastofnun.

„Þetta lítur bara mjög vel út. Það hefur tekist að ráða inn í flest störfin, þessi 2.500 stöðugildi. Í sumum tilfellum gátu sveitarfélög og opinberar stofnanir ekki alveg ráðið í öll störfin en svo erum við með biðlista og núna erum við að miðla til þeirra. Þannig að í rauninni er hægt að segja að við séum að nýta allar þessar ráðningaheimildir,“ segir Margrét.

Um er að ræða átak á veg­um stjórn­valda til að skapa 2.500 sum­arstörf fyr­ir náms­menn 18 ára og eldri í sam­vinnu við op­in­ber­ar stofn­an­ir, sveit­ar­fé­lög og fé­laga­sam­tök.

Síðast tókst ekki að ráða í öll störf

Ráðist var í sam­bæri­legt átak síðasta sum­ar en þá lýsti Ásmund­ur Ein­ar Daðason fé­lags­málaráðherra því að ekki hefði tekist að ráða í öll störf­in, sem voru um 3.400 tals­ins. Í ár eru færri störf í boði, en ráðning­ar­tíma­bilið er lengra og laun geta orðið hærri.

Margrét segir Vinnumálastofnun ætla að kanna atvinnustöðu stúdenta nánar.

„Við ætlum að gera könnun á atvinnustöðu stúdenta þannig að þeir geta sent inn ef þeir eru ekki komnir með starf. Þá sjáum við kannski hvernig atvinnuástandið er því auðvitað vitum við það ekki. Jafnframt geta sveitarfélögin skilað inn til okkar um það ef þau eru með nemendur á biðlista hjá sér. Við erum búin að kalla eftir upplýsingum um það,“ segir hún.  

Isabel Alejandra Díaz.
Isabel Alejandra Díaz. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki tímabært að leggja mat á árangur 

Spurð um árangur atvinnuátaksins segir Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, erfitt að segja til um hann eins og stendur.

„Ég tel að við getum ekki metið stöðuna fyrr en við erum komin með haldbær gögn til að rýna í,“ segir Isabel.  

„Okkar áherslur hafa auðvitað verið frekar skýrar að ég tel. Við settum stórt spurningarmerki við að ráðningartímabilið hafi aðeins verið lengt í tvo og hálfan mánuð í stað þess að lengja það í þrjá mánuði og að það hafi ekki verið fjárfest meira í stúdentum.“

Hún segir að Stúdentaráð muni standa fyrir könnun um atvinnustöðu stúdenta undir lok sumars, en síðast gerði það slíka könnun í maí.

mbl.is