Biðlisti eftir ráðningarheimildum fyrir námsmenn

Háskólatorg Háskóla Íslands.
Háskólatorg Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Umframeftirspurn er eftir ráðningarheimildum til að ráða námsmenn í störf í sumar. Um er að ræða átak á vegum stjórnvalda sem á að skapa 2.500 sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er nú biðlisti eftir ráðningarheimildum. Með hverjum námsmanni sem ráðinn er í starf á vegum átaksins fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum, að hámarki 472 þúsund krónur á mánuði auk framlags í lífeyrissjóð, í allt að tvo og hálfan mánuð.

Ráðningarheimildum fyrir 1.400 störf var úthlutað til sveitarfélaga en opinberar stofnanir og félagasamtök gátu sótt um samtals 1.100 ráðningarheimildir.

Þúsundir umsókna þegar borist frá námsmönnum

5.764 umsóknir hafa nú borist um sumarstörfin frá námsmönnum, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Opnað var fyrir umsóknir um fyrstu störfin þann 11. maí. Umsóknarfrestur rennur út hjá mörgum opinberum stofnunum á morgun en enn á eftir að auglýsa einhver störf. 

Alls hafa 532 auglýsingar verið birtar um sumarstörf námsmanna, en hver og ein getur vakið athygli á fleiri en einu stöðugildi.

Ef ekki reynist mögulegt að ráða í einhver starfanna verður þeim endurúthlutað til annarra stofnana eða samtaka sem nú eru á biðlista eftir ráðningarheimildum.

Ráðist var í sambærilegt átak síðasta sumar. Þá lýsti Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra því yfir að ekki tækist að ráða í öll störfin, sem voru um 3.400 talsins. Í ár eru færri störf í boði, en ráðningartímabilið er lengra og laun geta orðið hærri. Þá er félagasamtökum nú einnig boðið að taka þátt í átakinu en svo var ekki í fyrra.

mbl.is