Aldrei séð viðlíka áhuga á útboði

Keflavíkurflugvöllur stendur undir stórum hluta umsvifa í Reykjanesbæ.
Keflavíkurflugvöllur stendur undir stórum hluta umsvifa í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Aðsend

Tuttugu og fimm fjölþjóðleg teymi tóku þátt í samkeppni Kadeco um þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar til ársins 2050. Hvert og eitt teymi stendur saman af sex til tíu fyrirtækjum. 

Ráðgjafi Kadeco í samkeppninni, sem hefur yfir áratuga reyslu af stórum útboðum að geyma, segist ekki hafa orðið var við viðlíka áhuga stórra fyrirtækja á stóru útboði.  

Kadeco er þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og er í eigu ríkisins. Hlutverk þess er að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll.

Kadeco hefur rumsjón með 55 ferkílómetra svæði við flugvöllinn.

Þróunarsvæði Kadeco á Reykjanesskaga.
Þróunarsvæði Kadeco á Reykjanesskaga. Ljósmynd/Aðsend

Fimm fjölþjóðleg teymi hafa verið valin til áframhaldandi þátttöku í forvali Kadeco um þróunaráætlun fyrir svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll.

Stór fyrirtæki þátttakendur

Stuart Cairns, lögmaður hjá Bird & Bird-lögfræðistofu í London, vann við ráðgjöf samkeppninnar. Í tilkynningu er haft eftir honum að hann hafi unnið við ráðgjöf og skipulag fjölda sambærilegra samkeppna undanfarna áratugi en aldrei fyrr orðið var við jafn mikinn áhuga stórra fyrirtækja á slíku útboði. 

Teymin sem komust áfram eru: 

AECOM

AECOM er með höfuðstöðvar í Los Angeles í Bandaríkjunum en starfsemi um allan heim. Um 87.000 manns starfa hjá fyrirtækinu og var það í 157. sæti á Fortune 500-listanum árið 2019. Tíu samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Á meðal íslenskra samstarfsaðila eru VSB, Háskólinn í Reykjavík, Storð teiknistofa, LISKA ehf og Andersen & Sigurdsson.

Arup

Arup er fjölþjóðlegt hönnunarfyrirtæki með höfuðstöðvar í London. Um 16.000 manns starfa hjá fyrirtækinu og hefur það tekið þátt í verkefnum í meira en 160 löndum. Sex samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Á meðal íslenskra samstarfsaðila eru Yrki arkitektar og Vatnaskil.

Jacobs

Jacobs er alþjóðleg verkfræðistofa með höfuðstöðvar í Dallas í Bandaríkjunum. Um 55.000 manns starfa hjá fyrirtækinu á 400 skrifstofum víða um heim. Sjö samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Íslenskur samstarfsaðili er VSB.

KCAP

KCAP er hollenskt fyrirtæki með starfsemi víða um heim. Fyrirtækið sérhæfir sig í hönnun og skipulagi og leggur áherslu á tengslin milli arkitektúrs og borgarþróunar. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á sjálfbærni og fólksmiðaða hönnun. Tíu samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Íslenskur samstarfsaðili er VSÓ.

OMA

OMA er hollensk arkitektastofa með höfuðstöðvar í Rotterdam og skrifstofur í New York, Peking og Hong Kong. Fyrirtækið var stofnað árið 1975 af hollenska arkitektinum Rem Koolhaas og gríska arkitektinum Elia Zenghelis, ásamt Madelon Vriesendrop og Zoe Zenghelis. Sjö samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Íslenskur samstarfsaðili er Verkís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert