Fólkið á bak við bólusetningarnar

Bólusett í Laugardalshöll í gær.
Bólusett í Laugardalshöll í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi fólks hefur staðið vaktina við bólusetningu gegn Covid-19 frá því í lok desember. Þorri þjóðarinnar hefur verið bólusettur í Laugardalshöll þar sem nokkur þúsund manns hafa haft viðkomu á hverjum degi síðustu vikur.

Á bak við bólusetningarnar er því gífurleg skipulagning sem hefur gengið mjög vel að sögn þeirra sem blaðamaður ræddi við á vaktinni í gær. Einn af hjúkrunarfræðingunum sem er í því að bólusetja er Áslaug Arnaldsdóttir sem starfar á gjörgæslunni við Hringbraut. „Mig langaði bara svo að taka þátt í bólusetningunni, mér finnst svo merkilegt að verið sé að bólusetja heila þjóð,“ segir Áslaug og bætir við að allt hafi gengið rosalega vel og skipulagningin verið alveg frábær.

Áslaug Arnaldsdóttir hjúkrunarfræðingur
Áslaug Arnaldsdóttir hjúkrunarfræðingur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur annast gæslu á staðnum. Hörður Lilliendahl lögreglumaður segir að í heildina litið hafi starfið gengið mjög vel, „þetta er bara eins og færiband sem starfar gríðarlega vel“. Þá sér slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um sjúkragæslu og segir Ragnheiður Guðjónsdóttir að nóg hafi verið að gera í henni. „Það eru margir sem eru með sprautukvíða og fá svima eða yfirliðstilfinningu og þá erum við í að gefa vatn og annað slíkt. Við erum í rauninni á meðal annarra að sjá til þess að fólk komi heilt á húfi úr bólusetningunni,“ segir hún.

Ragnheiður Guðjónsdóttir hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Guðjónsdóttir hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hörður Lilliendahl lögreglumaður.
Hörður Lilliendahl lögreglumaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heldur uppi stemningunni

Victor Guðmundsson, sem gengur undir listamannsnafninu Doctor Victor, hélt svo uppi stuðinu í gær í höllinni en Victor er bæði læknir og plötusnúður. „Ég var að bólusetja hérna um daginn og var þá spurður hvort ég vildi ekki spila yfir bólusetningunni,“ segir Victor og segir að auðvelt hafi verið að þiggja það boð. „Þetta er klárlega eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir Victor en hann hefur spilað á fjölda staða um Evrópu. Vinirnir Alexander Haukur Gribachev og Valtýr H. Óskarsson stóðu svo vaktina við útganginn og seldu nauðsynjavörur fyrir nýbólusetta. Þeir hófu söluna í gær og hefur hún gengið ágætlega að sögn Alexanders. Hann segir að fólk sé helst að kaupa drykki og súkkulaðistykki. Strákarnir ætla að halda sölunni áfram eins lengi og þeir geta á meðan þeir eru í sumarfríi.

Victor Guðmundsson læknir.
Victor Guðmundsson læknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Valtýr H. Óskarsson og Alexander Haukur Gribachev.
Valtýr H. Óskarsson og Alexander Haukur Gribachev. mbl.is/Eggert Jóhannesson



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert