Reyndu að komast undan á hlaupum

Skömmu eftir klukkan 1 í nótt barst lögreglu tilkynning um tvo menn sem farið höfðu inn á byggingarsvæði í Kópavogi. Þegar mennirnir urðu varir við lögreglu reyndu þeir að komast undan á hlaupum, en voru handteknir skammt frá. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu. 

Fram kemur í dagbók lögreglu að talsverður fjöldi ökumanna hafi verið stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Um 21:40 var ökumaður stöðvaður við akstur grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn neitaði að gefa upp nafn eða framvísa skilríkjum. Í ljós kom að maðurinn var eftirlýstur og var hann vistaður í fangaklefa að lokinni skýrslutöku. 

Klukkan um 19:30 í gær var tilkynnt um umferðaróhapp á Miklubraut þar sem tvær bifreiðar höfðu skollið saman. Ökumaður og farþegi annarrar bifreiðarinnar voru fluttir á bráðamóttöku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert