Ráðast ekki í bollaleggingar um skaðsemi fíkniefna

Merki Rauða krossins var birt í forvarnarauglýsingu án leyfis.
Merki Rauða krossins var birt í forvarnarauglýsingu án leyfis. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Rauði krossinn segist hvorki efnislega sammála né ósammála skilaboðum auglýsingar Fé­lags fíkni­efna­lög­reglu­manna sem nafn Rauða krossins var sett við í leyfisleysi. Nálgunin hafi ekki verið í anda Rauða krossins, sérstaklega í ljósi afstöðu samtakanna varðandi afglæpavæðingu neysluskammta og vegna skjólstæðinga þeirra sem nýta sér þjónustu Frúar Ragnheiðar.

Ábyrgðarmenn auglýsingarinnar staðfestu við Rauða krossinn að mistök hafi orðið af þeirra hálfu.

Rauða krossinum hefur borist beiðni um að taka þátt í forvarnarauglýsingu félagsins í gegnum tíðina en ekki slegið til síðustu ár. Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir að samtökin séu almennt ekki að styrkja verkefni sem þessi eða auglýsa sig. Rauði krossinn reiðir sig sjálfur á styrki og getur því ekki eytt þeim í að fjármagna önnur félög, að sögn Gunnlaugs Braga.

Hann bendir á að þegar beiðni Fé­lags fíkni­efna­lög­reglu­manna var send félögum og samtökum hafi ekki legið fyrir hvað auglýsingin myndi innihalda heldur aðeins beðið um fjárstyrk fyrir forvarnarauglýsingu gegn því að einkennismerki fyrirtækisins birtist undir fréttinni.

Hræðsluáróður

Gunnlaugur segir orðalag auglýsingarinnar og hræðsluáróðurstón hennar vera ástæðuna fyrir því að samtökunum fannst rétt að árétta að þau hefðu ekki veitt samþykki fyrir því að nafn þeirra birtist undir auglýsingunni. 

„Við teljum það líklegra til árangurs og forvarna að nálgast málaflokkinn og þá einstaklinga sem honum tilheyra af virðingu. Nota mannúðlega og skaðaminnkandi nálgun, frekar en upphrópanir og hræðsluáróður,“ segir Gunnlaugur.

„Okkur fannst við skyldug til að árétta þetta í ljósi þeirra skjólstæðinga sem nýta okkar þjónustu í tengslum við Frú Ragnheiði og í ljósi afstöðu samtakanna hvað varðar neyslurými og afglæpavæðingu neysluskammta.“

Frú Ragnheiður er verkefni á vegum Rauða krossins sem veitir …
Frú Ragnheiður er verkefni á vegum Rauða krossins sem veitir jaðarsettum einstaklingum gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og nálaskiptaþjónustu, ásamt almennri fræðslu. Kristinn Magnússon

Láta fagfólk um að meta skaðsemi

Þegar Gunnlaugur var spurður hvort Rauði krossinn væri ósammála skilaboðunum í auglýsingunni sagði hann að samtökin væru ekki efnislega ósammála skaðsemi fíkniefna heldur frekar orðalaginu og nálguninni.

Þó vildi hann ekki segja að samtökin væru sammála. „Við látum fagfólk ræða skaðsemi fíkniefna frekar en að ráðast í bollaleggingar varðandi það.“ Hann bendir einnig á að rétt sé að velta fyrir sér hvers vegna eitt efni sé tekið sérstaklega fyrir. 

Tala ekki gegn forvarnarverkefnum

Gunnlaugur segir Rauða krossinn einbeita sér að jaðarsettum einstaklingum og þjónustu við þá. Verkefnin séu síbreytileg og samtökin bregðist við þar sem vandinn sé mestur hverju sinni. Svið forvarna séu vel mönnuð og því einbeiti Rauði krossinn sér að öðrum sviðum, þó það felist forvarnir í skaðaminnkandi verkefnum eins og 1717.

„Við munum aldrei tala gegn forvarnarverkefnum heldur snýst þetta um nálgun,“ segir Gunnlaugur og bendir á að Íslendingar hafi náð langt með fræðslu og yfirvegaðri umræðu.

mbl.is