Um þúsund læknar skrifað undir á fjórum dögum

Theódór Skúli Sigurðsson.
Theódór Skúli Sigurðsson.

Heilbrigðisráðherra verður afhent áskorun og undirskriftalisti á miðvikudag, sem um þúsund læknar hafa lagt nafn sitt við. Skorað er á ráðherra að bæta verulega stöðuna á Landspítalanum og í heilbrigðiskerfinu öllu.

„Það er einhver tregða í kerfinu. Við sjáum þetta ár eftir ár, ávallt kallar Landspítalinn eftir fjármagni. Stjórnmálamenn segjast vera búnir að setja fjármuni í kerfið, en við á gólfinu – við sjáum ekki þessa peninga,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, læknir og upphafsmaður undirskriftasöfnunarinnar.

Fyrir fimm árum skrifuðu um 80 þúsund manns undir sambærilega áskorun. Sú sneri að því að 11% af vergri landsframleiðslu yrði varið í heilbrigðiskerfið.

„Þessi ósk sem að alþjóð skrifaði undir, varðandi þessi 11% af vergri landsframleiðslu. Þrátt fyrir loforð stjórnvalda um að standa við þetta, þá hefur þetta ekki raungerst.“

Skorað er á ráðherra að bæta verulega stöðuna á Landspítalanum.
Skorað er á ráðherra að bæta verulega stöðuna á Landspítalanum. mbl.is/Þórður

Fólkið á gólfinu betur til þess fallið að meta stöðuna

Theódór bendir einnig á að það þurfi að vera samráð við fagaðila þegar komi að heilbrigðiskerfinu. Ekki sé nóg að vera að miða við einhverja ákveðna tölu.

„Það þarf að setja pening í þetta þangað til við á gólfinu finnum fyrir mun.“

Spurður hvert sé nægilegt fjármagn eða hvað eigi að miða við segir Theódór:

„Þegar umræðan hvert einasta haust í tengslum við fjárlögin og fjármuni til heilbrigðiskerfisins hættir, þá erum við komin á réttan stað.“

Undirskriftasöfnunin sprettur upp hjá grasrótarsamtökum lækna á netinu, en ekki beint frá Læknafélagi Íslands. Hún fór afar hratt af stað, en á fjórum dögum hafa um þúsund læknar skrifað undir eins og áður sagði. Ítarleg atriði áskorunarinnar verða birt í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra fær hana afhenta. 

mbl.is