Öllum takmörkunum aflétt innanlands

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á fundi dagsins í Safnahúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öllum takmörkunum innanlands verður aflétt frá og með morgundeginum. Frá þessu greindi ríkisstjórn Íslands á blaðamannafundi í Safnahúsinu klukkan 11 í dag. Er þetta í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst í mars 2020 sem engar takmarkanir eru í gildi innanlands. 

Samkvæmt afléttingaáætlun stjórnvalda var gert ráð fyrir því að öllum takmörkunum innanlands yrði aflétt síðari hluta júní, þegar búið yrði að bólusetja um 75% landsmanna að minnsta kosti einu sinni. Rúmlega 87% hafa nú fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnis. 

Á blaðamannafundinum þakkaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þjóðinni þegar hún, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynntu afléttingarnar. „Staðan hér á Íslandi er með besta móti í alþjóðlegu samhengi,“ sagði Katrín. 

Áfram verða viðhafðar ráðstafanir á landamærunum fram eftir sumri. 

Svandís sagði á blaðamannafundinum að Ísland væri fyrst Norðurlandanna til þess að aflétta takmörkunum innanlands og jafnvel fyrsta ríki Evrópu til að gera svo. „Njótið sumarsins og takk fyrir þessa sameiginlegu baráttu,“ sagði Svandís. Glatt var yfir ráðherrunum öllum: „Til hamingju með daginn,“ sagði Áslaug Arna í ávarpi sínu. Í tilefni dagsins var blaðamönnum og ljósmyndurum á svæðinu boðið upp á köku. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnir um afléttingarnar í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnir um afléttingarnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímuskylda, nándarreglan og fjöldatakmarkanir heyra með afléttingunum sögunni til frá og með morgundeginum. Engar takmarkanir verða lengur í gildi um líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, verslanir, veitingastaði, skemmistaði og krár. 

Takmarkanir innanlands vegna Covid-19 hafa verið breytilegar á tíma heimsfaraldursins eftir stöðunni hverju sinni. Nándarregla og fjöldatakmarkanir hafa verið viðvarandi allt tímabilið, grímuskylda í einhverri mynd hefur gilt um langa hríð.

Hætta að skima börn og fólk með vottorð 

Samhliða afléttingum innanlands voru í dag tilkynntar breytingar á sóttvarnareglum á landamærunum sem taka gildi 1. júlí og gilda til 15. ágúst. 

Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundinum í dag.
Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýnatöku verður hætt hjá þeim sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu með bóluefnum sem Lyfjastofnun Evrópu og/eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa viðurkennt, eða fyrri sýkingu. Þá verður sýnatöku hætt hjá börnum sem fædd eru 2005 eða síðar. Í tilvikum þeirra sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um bólusetningu eða fyrri Covid-19-sýkingu þarf áfram að framvísa neikvæðu PCR-prófi á landamærunum, undirgangast skimun við komuna til landsins og dvelja í fimm daga sóttkví fyrir seinni skimun. 

Tilkynningu stjórnvalda um afléttingarnar má finna hér. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á blaðamannafundinum í dag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina