Aukin virkni í Geldingadölum

Virku svæðin á gosstöðvunum sjást vel á gervihnattamyndunum og mælist …
Virku svæðin á gosstöðvunum sjást vel á gervihnattamyndunum og mælist virknin meiri í Geldingadölum en verið hefur. Ljósmynd/LANDSAT-8 gervitungl NASA

Mun meiri virkni mælist á gosstöðvunum í Geldingadölum en verið hefur. Þetta sýnir gervitunglamynd sem tekin var í gær. Ef fram fer sem horfir mun hraunið streyma úr dalnum í Nátthagakrika, og þaðan yfir Suðurstrandarveg, hraðar en ráð var gert fyrir. 

Á myndinni má sjá hitadreifingu í hrauninu þar sem hvítu svæðin tákna opnar hraunrásir sem eru heitust en svörtu svæðin köldust.

„Það er mun meiri virkni í Geldingadölum en var. Það er greinilegt að yfirborðsflæðið úr gígnum er mest að fara í Geldingadal,“ segir Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, í samtali við mbl.is. Þau svæði sem eru köld á myndinni eru þó ekki endilega óvirk að hans sögn.

Litlu gulu deplarnir tveir til hægri á myndinni tákna hraunpolla.
Litlu gulu deplarnir tveir til hægri á myndinni tákna hraunpolla. Ljósmynd/LANDSAT-8 gervitungl NASA

Hraunskorpan blekkir – Hraunpollar fullir af kviku 

Gulu deplarnir tveir til hægri á myndinni tákna hraunpolla. „Þarna er fullt af kviku. Svo fer þetta í lokuðum rásum inn í Meradal. Undir honum er bráðið hraun, þó að þetta líti allt saman svart út,“ segir Þorvaldur og bætir við að þykka hraunskorpan blekki augað. „Skorpan er þykk en það er glóandi hraun undir þessu öllu saman.“ 

Hann segir að þó svo að líkurnar á því að fara í gegnum hraunið stígi maður út á það séu hverfandi þá sé skynsamlegt að sleppa því við núverandi aðstæður. 

Aukið álag á leiðigarðinn

Þorvaldur segir ljóst að einhver breyting er að eiga sér stað í Geldingadölum samkvæmt myndunum sem teknar voru í gær og segir hann að búast megi við auknu álagi á leiðigarðinn syðst við Geldingadali sem lokið var við á fimmtudag. Garðurinn er fimm metra hár og 200 metra langur.  

„Ef meira flæði er að fara niður í Geldingadali er það mikið áhyggjuefni þar sem það þýðir að atburðarásin verður hraðari,“ segir Þorvaldur sem treystir sér þó ekki til að spá fyrir um hvenær hraunið muni ná að Suðurstrandarvegi. „Það er einhver breyting í gangi sem við verðum að fylgjast með.“

Rúmir þrír mánuði eru síðan gosið hófst en Þorvaldur segir áhugann síður en svo vera að dvína. „Ég fæ ekki leið á þessu því það er alltaf eitthvað nýtt að skoða. Það eru svo margar hliðar á þessu sem er hægt að rýna í og skilja betur. Því lengur sem tilraunin stendur því betra.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert