Nákvæm og áreiðanleg gögn um mannvirki á Íslandi

Markmið er að lækka kostnað sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem …
Markmið er að lækka kostnað sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem nýta mannvirkjaskrána en auka á sama tíma þjónustu og leita tækifæra til frekari umbóta.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa ákveðið að hefja uppbyggingu nýrrar mannvirkjaskrár, gagnagrunns um íslensk mannvirki. Markmiðið er að tryggja samfélaginu á hverjum tíma áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirkjagerð og stöðuna á húsnæðismarkaði. Ráðgert er að ný mannvirkjaskrá verði komin í gagnið 1. júní 2022.

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins, að uppbygging og rekstur á nútímalegum gagnagrunni muni skila ábata inn í samfélagið með stórbættri þjónustu, lægri kostnaði og fleiri tækifærum til nýsköpunar. Stjórnvöld og aðrir hagaðilar eigi þannig kost á að bæta enn frekar áætlanagerð á sínum vegum og taka markvissar ákvarðanir byggðar á traustum upplýsingum úr rafrænum gagnasöfnum.

Þá segir, að í mannvirkjaskrá verði nákvæm og áreiðanleg gögn um mannvirki á Íslandi og byggingastig þeirra. Það verður m.a. hægt að fylgjast með fjölda íbúða í byggingu eftir byggingarstigi. Upplýsingar um fasteigna- og brunabótamat verða einnig aðgengilegar, m.a. fyrir ytri vefþjónustu.

Markmið að lækka kostnað sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana

Markmið er að lækka kostnað sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem nýta mannvirkjaskrána en auka á sama tíma þjónustu og leita tækifæra til frekari umbóta.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun halda utan um nýju mannvirkjaskrána og þróa nýja gagnagrunninn í góðu samstarfi við aðila verkefnisins. Mannvirki hafa hingað til verið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands en með þessum breytingum verður mannvirkjaskrá nú aðgreind frá öðrum hlutum fasteignaskrárinnar. Þjóðskrá mun á hinn bóginn áfram halda utan um landeignaskrá og staðfangaskrá, að því er ráðuneytin greina frá í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert