Gosmóðan ekki á förum á meðan veðrið er stillt

Gosmengunin er mest við gosstöðvarnar sjálfar.
Gosmengunin er mest við gosstöðvarnar sjálfar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gosmóðan sem er búin að liggja yfir höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga mun að öllum líkindum ekki fara á meðan ekki hreyfir vind, að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Gosmóðan orsakast af brennisteinstvísýringi sem leggur frá eldgosinu í Geldingadölum en að sögn Sigþrúðar stafar ekki mikil hætta af móðunni á höfuðborgarsvæðinu enn sem stendur, þó hún sé að vísu ekki holl.

Samkvæmt mælingum eru loftgæðin enn innan sæmilegra marka í Reykjavík en áhugasamir geta fylgst með menguninni á vef Umhverfisstofnunar.

Ekki er von á miklum vindi á suðvesturhorninu næstu daga, ef marka má spár Veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert