Andlát: Tryggvi Ingólfsson

Tryggvi Ingólfsson
Tryggvi Ingólfsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggvi Ingólfsson, fv. verktaki á Hvolsvelli, lést sl. mánudag, 5. júlí, 71 árs að aldri. Tryggvi var fæddur í Neðri-Dal undir Vestur-Eyjafjöllum 16. mars 1950, sonur hjónanna Ingólfs Ingvarssonar og Þorbjargar Eggertsdóttur.

Tryggvi ólst upp í foreldrahúsum og lauk gagnfræðaprófi frá Skógaskóla árið 1966. Fór í kjölfar þess út á vinnumarkaðinn, og reri sex vertíðir frá Eyjum og Þorlákshöfn en hóf vörubílaútgerð árið 1973. Sneri sér svo að rekstri vinnuvéla og jarðvinnu. Hann stofnaði verktakafyrirtækið Jón og Tryggvi ehf. með Jóni Óskarssyni árið 1980 og stóð rekstur þess næstu 26 árin. Sinntu þeir félagar mörgum stórum verkefnum, svo sem gerð íþróttavalla í Mosfellsbæ, að Laugarvatni og í Laugardal í Reykjavík.

Tryggvi var virkur í félagsmálum, svo sem á vettvangi Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi. Var í hreppsnefnd Hvolhrepps 1986-1998 og gegndi jafnhliða því ýmsum trúnaðarstörfum í héraði.

Vorið 2006 lenti Tryggvi í hestaslysi, féll af baki, hlaut mænuskaða og lamaðist fyrir neðan háls. Eftir sjúkahúsvist í kjölfar þess var Tryggvi næstu árin á hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli, eða fram í desember 2017 að hann fór til læknismeðferðar í Reykjavík. Fékk hins vegar ekki að snúa aftur á Kirkjuhvol, og var næstu misserin á sjúkrahúsinu. Fékk að lokum inni á hjúkrunardeildinni Ljósheimum á Selfossi og dvaldist þar síðustu árin, uns yfir lauk. Eftir slysið þurfti Tryggvi mikillar umönnunar við og aðstoð við allar helstu athafnir daglegs lífs.

Á nýársdag 1972 kvæntist Tryggvi Elísabetu Andrésdóttur frá Vatnsdal í Fljótshlíð. Þau stofnuðu heimili á Hvolsvelli, byggðu sér hús og bjuggu þar alla tíð. Börn þeirra eru Finnur Bjarki, Berglind Elva, Þorbjörg og Aníta Þorgerður, sem öll búa á Selfossi. Fyrir hjónaband átti Tryggvi soninn Guðmund sem býr í Reykjavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert