Evrópa enn á oddinum hjá Viðreisn

Sigmar Guðmundsson, frambjóðandi Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, segir að flokkur hans setji Evrópumálin enn á oddinn, hann sé ekki feiminn við það. Það sé alveg skýrt að hann telji hagsmunum Íslands betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess.

Gjaldmiðlamálin séu þar sérstakt hagsmunamál, en Viðreisn vilji byrja á því að fara að fordæmi Dana og binda gengi íslensku krónunnar við evruna til þess að auka stöðugleika í efnahagsmálum. Hann vill þó ekki segja á hvaða gengi krónan skuli verða bundin evrunni.

„Ég er ekki með einhverja tölu hér til þess að henda fram í því, enda er hagfræðimenntað fólk betur til þess fallið að reikna það út,“ segir Sigmar. Við blasi að það skipti verulegu máli fyrir efnahagslíf landsins og peningamál á hvaða gengi krónan væri bundin við evruna ef slíkt myntráð yrði ofan á. „Það þarf að vera á gengi, sem tryggir gott jafnvægi milli allra atvinnugreina,“ segir Sigmar en ítrekar að það verði gert skýrt í komandi kosningabaráttu.

„Að sjálfsögðu verðum við klár með það.“

Þetta er meðal þess, sem fram kemur í viðtali við Sigmar um innkomu hans í stjórnmálin, stjórnmálaviðhorfið, stefnu Viðreisnar og komandi kosningar, sem er í Dagmálum í dag, streymi Morgunblaðsins, en það er opið öllum áskrifendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert