Atvinnuleysi var 7,4 prósent í júní

Atvinnulausir voru alls 14.316 í lok júní, 7.528 karlar og …
Atvinnulausir voru alls 14.316 í lok júní, 7.528 karlar og 6.788 konur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skráð atvinnuleysi var 7,4 prósent í júní og minnkaði talsvert eða um 1,7 prósentustig frá því í maí. Í maí var atvinnuleysi 9,1 prósent.

Atvinnulausir voru alls 14.316 í lok júní, 7.528 karlar og 6.788 konur.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar, Vinnumarkaðurinn á Íslandi.

Af þeim 3.307 atvinnulausu sem fækkaði um á atvinnuleysisskrá í júní fóru um það bil 1.360 á ráðningarstyrk.  

Atvinnuleysi mældist mest á Suðurnesjum eða 13,7 prósent og minnkaði úr 18,7 prósentum í maí. Næstmest atvinnuleysi var á höfuðborgarsvæðinu, eða 7,9 prósent, og lækkaði úr 9,4 prósentum frá því í maí.

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi haldi áfram að minnka í júlí, meðal annars vegna atvinnuátaka stjórnvalda og aukinna umsvifa í ferðaþjónustu, og verði á bilinu 6,3 til 6,8 prósent.

Atvinnuleysi var 10,4 prósent í apríl, 11,0 prósent í mars, 11,4 prósent í febrúar og 11,6 prósent í janúar 2021.

Fækkaði mest í ferðatengdri starfsemi

Fram kemur í skýrslunni að atvinnulausum hafi fækkað mest í ferðatengdri starfsemi í júní eða á bilinu 26 prósent til 37 prósent. Þá hafi atvinnulausum fækkað um 21 prósent á milli mánaða í menningartengdri starfsemi. Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum.

Alls höfðu 5.818 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok júní en þeim fækkaði um 612 frá því í maí. Hins vegar voru þeir 2.700 í júnílok 2020.

Um helmingur atvinnuleyfa til sérfræðinga

Vinnumálastofnun gaf út 197 atvinnuleyfi í júní til erlendra ríkisborgara til að starfa hér á landi. Af þeim voru 92 ný leyfi og 105 leyfi voru framlengd. Flest leyfi voru gefin út vegna starfa sem krefjast sérfræði- eða sérmenntunar eða 49 prósent.

Þá lauk hlutabótaleiðinni í lok maí en hún var í boði frá mars 2020.  Alls fengu rúmlega 6.700 atvinnurekendur um 28 milljarða styrk vegna ríflega 36.500 starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert