Eldgosið heldur áfram að heilla

Frá gosstöðvunum í Geldingadölum.
Frá gosstöðvunum í Geldingadölum. mbl.is/Sigurður Unnar

„Það er augljós aukning í aðsókn á tjaldsvæðið hérna í Grindavík eftir að gosið hófst í Geldingadölum,“ segir Sreten Ævar, umsjónarmaður tjaldsvæðisins.

„Þetta eru að mestu ferðamenn enda vilja Íslendingar yfirleitt ekki gista á fjölförnum tjaldsvæðum. Þeir elta líka gjarnan góða veðrið og veðrið hefur ekki verið neitt sérstakt hérna í sumar,“ bætir hann við.

Sreten Ævar segir starfsfólk tjaldsvæðisins sjá sérstaklega mikinn mun á aðsókninni eftir að reglugerð um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna Covid-19 var breytt 15. júní og að ferðamenni stoppi nú lengur við en þeir gerðu áður.

„Það hafa verið að meðaltali 50-60 bílar hérna við tjaldsvæðið á hverjum degi,“ segir hann. „Eftir að hegðun eldgossins fór að breytast fór fólk líka að gista lengur en áður.“

Halda að þetta sé Disney-land

Að sögn Sreten eru ferðamenn misvel búnir fyrir gönguna upp að gosinu.

„Þegar veðurskilyrði eru slæm þá ráðleggjum við fólki að ganga ekki upp að gosi. Við erum bara í því að rukka inn á tjaldsvæðið heldur ber okkur líka skylda til að upplýsa fólk um aðstæður. Margir ferðamenn halda að þetta sé hálfgert Disney-land og að gangan upp að gosi sé leikur einn.“

Samkvæmt Sreten er það fólk sem velur að gista á tjaldsvæðum yfirleitt vel búið í útivist. „Það veit oftast hvað það er að gera, hvernig á að klæða sig og hegða sér. Sjálfur hef ég farið upp að eldfjallinu fimm sinnum og í eitt skiptið þurfti ég að fara með rútu upp á bílastæðið í Geldingadölum. Í rútunni var ein kona með nýþvegið hár og enga húfu á meðan ég var kappklæddur. Það var eins og við værum að fara hvort í sína ferðina,“ segir Sreten.

Vöruskortur í búðum bæjarins

Inntur eftir því segist Sreten ekki verða var við ferðamenn í verslunum bæjarins en að ummerkin um þá séu greinilega til staðar.

„Þegar maður fer í Nettó núna þá er aldrei neitt til. Hillurnar eru hálftómar. Við sjáum ferðamennina sjálfa kannski ekkert endilega í búðunum en tómar hillurnar er ágætisummerki um þá. Starfsmenn Nettó vinna þó harðri hendi við að fylla á vörur alla daga og eiga mikið hrós skilið fyrir það,“ segir Sreten Ævar að endingu við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert