Endurgert í stíl Hótels Borgar

Landssímahúsið var hvítmálað og byggð ofan á það hæð með …
Landssímahúsið var hvítmálað og byggð ofan á það hæð með Mansard-þaki og kvistum til að líkja eftir útliti Hótels Borgar. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarbúar hafa tekið eftir því að framhlið Landssímahússins, sem hefur verið fært í upprunalegt horf, svipar orðið mikið til framhliðar Hótels Borgar. Bæði húsin voru teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, á fyrri hluta síðustu aldar.

Á Landssímareitnum eru níu nýjar og endurgerðar byggingar sem snúa að Kirkjustræti í suðri, Aðalstræti í vestri, Vallarstræti í norðri og Austurvelli/Pósthússtræti í austri.

Félagið Lindarvatn fer með framkvæmdirnar en reiturinn verður leigður Icelandair Hótelum undir allt að 163 herbergja hótel.

Meðvituð ákvörðun

Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, segir líkindin með húsunum enga tilviljun. Landssímahúsið hafi verið endurgert með Hótel Borg í huga.

„Já, það var meðvituð ákvörðun. Sömuleiðis sú ákvörðun að láta nýbyggingarnar í Kirkjustrætinu kallast á við skrifstofubyggingar Alþingis hér hinum megin við götuna,“ segir Jóhannes og bendir til suðurs.

„Þetta svæði hefur mikla sögulega þýðingu fyrir Íslendinga og þessi hús hafa öll sína sögu og þetta er vandmeðfarið. Það þarf að vanda til verka þegar menn byggja á svona svæðum. Ég tala nú ekki um á stað sem liggur við mikilvægasta almenningstorg Íslendinga, Austurvöll, við hlið þinghússins og í hjarta borgarinnar. Þannig að við vorum allan tímann meðvituð um að þarna þyrfti að taka réttar ákvarðanir um hönnunina. Varðandi hönnunarferlið er gaman að segja frá því að Landssímahúsið var á sínum tíma múrað en ekki málað. Síðan var sett á það steining sem var á því þegar við hófumst handa við framkvæmdirnar. Við ákváðum að fara aftur til fortíðar og fjarlægja steininguna af húsinu. Svo létum við mála húsið svo það kallist vel á við Hótel Borg sem stendur beint á móti við Austurvöll.“

Eins og sjá má eru líkindi með Landssímahúsinu og Hótel …
Eins og sjá má eru líkindi með Landssímahúsinu og Hótel Borg. Munurinn liggur ekki síst í turnhúsi og bogadregnum gluggum Hótels Borgar. mbl.is/Árni Sæberg

Skírskotar til Hótel Borgar

„Sama má segja um Mansard-þakið á Landssímahúsinu, en byggð var ný hæð ofan á húsið sem er undir súð og með kvistum, en það er augljós skírskotun og speglun við Hótel Borg. Þannig að okkur þykir þetta hafa heppnast vel og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við þessari hönnun,“ segir Jóhannes.

Nýju svalirnar á Landssímahúsinu séu sömuleiðis endurgerðar til að endurspegla svalirnar á Hótel Borg. En hvers vegna var gengið svona langt til að halda í söguna?

„Það eru kannski tvær meginástæður. Í fyrsta lagi kemur ekkert annað til greina en að vanda til verka þegar svona kennileiti er byggt í Reykjavík. Það er ekki hægt að tjalda til einnar nætur á stað sem hefur svona mikla sögulega skírskotun fyrir marga Íslendinga. Það er kannski meginástæðan. Hin ástæðan var ákall í samfélaginu um að ekki yrði farið of geyst við þessar breytingar. Ekki mætti glata sögulegri tengingu við svæðið. Því ákalli var svarað. Til dæmis var Nasa-salurinn endurbyggður í upprunalegri mynd og Landssímahúsið fært í upprunalegt horf. Það hefði verið einfaldara og ódýrara að láta forsmíða handrið en við létum steypa handrið í sama formi og upphaflega handriðið. Síðan létum við setja nýja glugga í húsið sem eru í sama formi og upphaflegir gluggar,“ segir Jóhannes um þessa viðleitni.

Meiri reisn yfir húsinu

THG arkitektar teiknuðu byggingarnar á Landssímareitnum.

Freyr Frostason, arkitekt hjá THG arkitektum, segir að þakið á Landssímahúsinu hafi verið í einfaldara lagi miðað við aðrar byggingar Guðjóns Samúelssonar. M.a. með það það í huga hafi þakið verið hækkað til samræmis við Borgina.

„Með þessu verður að mínu mati meiri reisn yfir húsinu,“ segir Freyr. Af ljósmyndum að dæma hafi húsið verið steingrátt í upphafi. Þegar gamla pússningin hafi verið endurvakin hafi það hins vegar verið málað hvítt í stíl við Hótel Borg.

Spurður hvort til greina hafi komið að gera turn, líkt og á Hótel Borg, segir Freyr að slíkar breytingar hefðu hvorki samræmst útliti hússins né deiliskipulagi á reitnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »