Ekki hægt að segja til um endanleika aðgerða

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram minnisblað fyrir ríkisstjórnina fyrir hönd …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram minnisblað fyrir ríkisstjórnina fyrir hönd heilbrigðisráðherra í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðgerðirnar á landamærunum sem ríkisstjórnin tilkynnti fyrr í dag mildilegar. „Við getum farið í mildilegar aðgerðir vegna góðs bólusetningahlutfalls en um leið er rétt að hafa allan varann á í ljósi fjölgunar smita,“ sagði hún við blaðamann mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.

Katrín lagði fram minnisblað fyrir ríkisstjórnina fyrir hönd heilbrigðisráðherra sem var staddur fyrir norðan. Þeir sem koma til landsins og eru fullbólusettir munu þurfa að framvísa neikvæðu Covid-prófi, auk vottorðs um bólusetningu. 

Vilja sjá hvernig málin þróast

Fólk hefur verið að horfa til þess að bólusetning sé leiðin út úr faraldrinum. Hvert er markmiðið núna hjá stjórnvöldum?

„Við erum auðvitað búin að ná gríðarlega góðu bólusetningahlutfalli, við stöndum hvað fremst í heimi þegar kemur að afléttingu aðgerða, hér eru engar innanlandsráðstafanir núna og það eru mjög fá ríki sem geta státað af því. Það er í takti við það sem hefur verið okkar stefna hingað til, að við höfum getað verið að tryggja frelsi okkar fólks mun betur samhliða ráðstöfunum en flest önnur ríki.

Þannig að það sem við þurfum núna að vega og meta er að sjá hvernig þetta þróast og hvort að bóluefnin duga til að veita þá vörn gegn alvarlegum veikindum, sem við vonumst að sjálfsögðu til, að þau geri og öll merki eru til að þau geri,“ segir Katrín.

Ísland ekki eyland

Spurð hvaða forsendur þurfi að vera til staðar til að hægt verði að aflétta aðgerðunum segir Katrín að við drögum þann lærdóm af síðustu sextán mánuðum að ekki sé hægt að segja til um endanleika aðgerða. Hún bendir á að bólusetningar séu komnar lengra hér á landi en víðast hvar annars staðar. 

Það var alveg fyrirséð að staðan í öðrum löndum mun alltaf óhjákvæmilega hafa áhrif á okkur, við erum ekki eyland í þessum skilningi.“

Gögn frá Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem smit hafa verið að aukast, sýna að dauðsföll og alvarleg veikindi virðast ekki vera að fylgja fjölda smita og það hefur ekki verið tilfellið hér. Er ástæða til að hafa takmarkanir þrátt fyrir það?

„Við metum það þannig að þetta séu mildilegar ráðstafanir, einmitt vegna þess að við erum að meta gögnin. Við erum líka að sjá að Bretar til að mynda eru að aflétta sínum ráðstöfunum í dag, þannig að það er ekki alveg hægt að taka mark á gögnum þar sem hafa verið ráðstafanir samhliða bólusetningu.

Í öðru lagi erum við að horfa til Ísraels sem hefur verið mjög framarlega í bólusetningum, sem hefur séð ákveðna fjölgun á innlögnum og alvarlegum veikindum. Þannig að við þurfum auðvitað að skoða heiminn allan og skoða þá samfélög þar sem hefur verið svipað bólusetningahlutfall og litlar ráðstafanir [og hér, innskot blaðamanns].

Katrín segir að takmarkanir innanlands hafi ekki verið ræddar í ríkisstjórn og að engar slíkar tillögur hafi borist.

Ýmissa spurninga spurt við ríkisstjórnarborðið

Ég vil líka segja það, því þetta er krafa um neikvætt próf, að þau eru mjög aðgengileg. Þannig að þetta á ekki að skapa fólki óþarfa erfiðleika,“ bætir Katrín við.

Heldurðu að þetta muni ekki hafa áhrif á ferðaþjónustuna?

„Ég veit að ferðaþjónustan verður auðvitað ekkert sérstaklega glöð og þau hafa lýst þeirri skoðun sinni en við erum bara ennþá stödd í heimsfaraldri og við þurfum að hegða okkur samkvæmt því.“

Var samstaða í ríkisstjórninni um þessa ákvörðun?

„Það var ýmissa spurninga spurt við ríkisstjórnarborðið, en þetta er niðurstaðan.“

mbl.is