Bólusettir ferðamenn framvísi neikvæðu prófi

Ferðamenn í Leifsstöð.
Ferðamenn í Leifsstöð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að herða aðgerðir á landamærum Íslands. Aðgerðirnar taka gildi eftir viku, en í þeim felst að bólusettir ferðamenn sem hingað koma þurfi jafnframt að framvísa neikvæðu PCR-prófi. 

Einnig verður hægt að framvísa neikvæðu mótefna-hraðprófi. 

Þar að auki verður mælst til þess að þeir sem búsettir eru hér á landi eða hafa hér tengslanet og koma að utan fari í sýnatöku sólarhring eftir komuna til landsins. Það verður þó ekki skylda líkt og framvísun PCR-prófa. 

Engar takmarkanir innanlands voru ræddar á fundinum, en sóttvarnalæknir hafði ekki lagt slíkar aðgerðir til. 

Þótti ekki standast jafnræðisreglu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu eftir að hafa setið ríkisstjórnarfundinn. Þar lagði hún fram minnisblað sóttvarnalæknis um aðgerðir á landamærunum fyrir hönd Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem er stödd fyrir norðan.

Í minnisblaðinu var mælt með því að þeir sem eru búsettir hér á landi eða hafa tengslanet hér og koma að utan yrðu skyldugir til að fara í sýnatöku sólarhring eftir komu en ríkisstjórninni þótti það ekki standast jafnræðisreglu.

Smitum fjölgað verulega

„Í nýju minnisblaði sóttvarnalæknis, sem rætt var í ríkisstjórn í dag, kemur fram að undanfarið hafi Covid-19-smitum fjölgað verulega hér á landi. Flest smit séu af völdum delta-afbrigðis kórónuveirunnar," segir í fréttatilkynningu frá Stjórnarráðinu.

„Samkvæmt niðurstöðum erlendra rannsókna hafi komið í ljós að fullbólusettir einstaklingar geta smitast af Covid-19 og geta jafnframt smitað aðra. Sóttvarnalæknir telur að núverandi fyrirkomulag muni auka hættuna á frekari útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu og nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar svo ekki þurfi að grípa til takmarkana á samkomum innanlands,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert