Fólk streymdi í sýnatöku

Röðin í sýnatöku var ansi löng í dag.
Röðin í sýnatöku var ansi löng í dag. Ljósmynd/Ari

Fjöldi fólks beið í langri röð í dag eftir að komast í sýnatöku á Suðurlandsbraut. Alls greindust 78 smit innanlands í gær og voru 2.296 sýni tekin við einkennasýnatöku í gær.

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri yfir sýnatökum á Suðurlandsbraut og á Keflavíkurflugvelli, sagði sýnatökuna hafa gengið ágætlega þótt röðin hafi verið löng.

„Þetta bara tikkar inn hægt og rólega. Ég veit ekki hversu mikil bið er núna en röðin er ansi löng,“ sagði hún þegar rætt var við hana síðdegis og bætti því við að mögulega hafi verið tekin fleiri sýni í dag en í gær.

Er fólk þreytt á að bíða?

„Nei, við finnum ekki fyrir neinu svoleiðis, eða allavega hefur það ekki skilað sér til okkar. Það hafa allir fullan skilning á að það sé fjöldi fólks að mæta og þetta tekur bara smátíma,“ segir hún að lokum.

Ljósmynd/Ari
mbl.is