Þýsk hjón völdu að hvíla í Lögmannshlíð

Karl-Werner Schulte við leiði eiginkonu sinnar í Lögmannshlíðarkirkjugarði.
Karl-Werner Schulte við leiði eiginkonu sinnar í Lögmannshlíðarkirkjugarði. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Þýsk hjón, prófessor dr. Karl-Werner Schulte og dr. Gisela Schulte-Daxbök, sem færðu Akureyrarbæ að gjöf merkilegt safn Íslandskorta árið 2014, heilluðust svo af Akureyri að þau ákváðu að þar skyldu þau lögð til hinstu hvílu þegar þar að kæmi.

Gisela lést 2019 og er jarðsett í Lögmannshlíðarkirkjugarði, að því er kemur fram á fréttavefnum Akureyri.net. Þau hjónin komu fyrst til bæjarins árið 1971 og oft eftir það, þar á meðal í brúðkaupsferð 1976.

Karl-Werner hefur dvalið á Akureyri undanfarið. Meginástæða ferðarinnar er 45 ára brúðkaupsafmæli þeirra Giselu 17. júlí auk þess sem afmælisdagur hennar er í júlí.

Fram kemur á síðunni að þessa dagana prýðir fjöldi korta veggi Minjasafnsins á Akureyri en þar eru Íslandskortin varðveitt. Þau hjónin höfðu safnað kortunum í áratugi og það elsta er frá árinu 1530. Þau söfnuðu ekki yngri kortum en frá því um 1800.

Útlit er fyrir að í haust verði kortin frá hjónunum í vörslu safnsins orðin um 140 talsins.

mbl.is