Vaka sækir um fjögur starfsleyfi í stað eins

Íbúar óttast að Vaka nýti fresti og undanþágur til að …
Íbúar óttast að Vaka nýti fresti og undanþágur til að færa sig ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúar í grennd við starfsstöðvar fyrirtækisins Vöku við Héðinsgötu 2 kærðu nýverið ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að veita Vöku tímabundið starfsleyfi. Málið fór fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem féllst á með íbúunum að starfsemin samræmdist ekki aðalskipulagi borgarinnar. Samkvæmt því er aðeins gert ráð fyrir léttum iðnaði en það hugtak er hvergi skilgreint með fullnægjandi hætti.

Starfsemi Vöku er af fernum toga. Á Héðinsvegi hefur því farið fram bílapartasala, bifreiða- og vélaverkstæði, hjólbarðaverkstæði og úrvinnsla vegna endurvinnslu bíla, bílapressun. Áður var öll starfsemin háð einu starfsleyfi en nú hefur Vaka ákveðið að sækja um fjögur ný starfsleyfi, eitt fyrir hvern þátt starfseminnar.

Samið við aðra aðila

Fram að því að tekin verður almennilega afstaða til umsóknanna sækist Vaka eftir undanþágu frá ráðherra til að halda starfsemi sinni áfram án starfsleyfis. Heilbrigðiseftirlitið þarf að skila inn umsögn til ráðherra fyrir vikulok og hefur einnig verið óskað eftir afstöðu skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa í málinu.

Fjórtán manns misstu vinnuna hjá Vöku eftir uppkvaðningu úrskurðarins og Reynir Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vöku, segist búinn að semja við aðra aðila að taka á móti bílum meðan Vaka hefur ekki starfsleyfi til þess.

Íbúum brá í brún fyrr í vikunni þegar þeir tóku eftir því að vinnuvélar fyrirtækisins voru í gangi, þrátt fyrir að nýbúið væri að fella úr gildi veitingu starfsleyfis þess. Þeir sendu inn kvörtun til heilbrigðiseftirlitsins sem mætti í úttekt í gær. Guðjón Ingi Eggertsston heilbrigðisfulltrúi er ekki tilbúinn að tjá sig um niðurstöðu úttektarinnar að svo stöddu.

Reynir bendir á að pressun járns sé ekki starfsleyfisskyld heldur aðeins pressun bíla. Í Vöku fari fram endurvinnsla og járn sé flutt úr landi. „Við getum ekki bara slökkt á þessu,“ segir hann. Guðjón tekur undir að pressun járns sé ekki starfsleyfisskyld ein og sér en það sé þó ekki útilokað í stærra samhengi.

Íbúar ósáttir

Íbúar vilja starfsemina burt og hafa áhyggjur af heilsufarslegum afleiðingum þess að hafa þarna spilliefni og mengun frá bílapressunni. Reynir segir að mengunin stafi ekki síður frá umferðinni á Sæbrautinni og að vélin sem knýr áfram pressuna sé af sama meiði og vél í vörubíl.

Vaka á lóð í Hafnarfirði og að sögn Reynis er unnið að því að færa starfsemina þangað. Hann segist ekki hafa áhuga á deilum við nágranna en sér ekki fram á að það verði hægt fyrr en á næsta ári og því hefur Vaka sótt um leyfi út árið 2022.

Íbúarnir hafa áhyggjur af því að fyrirtækið ætli sér að brúa bilið með þessum starfsleyfum og svo sitja sem fastast með undanþágum og frestum, þrátt fyrir yfirlýsingar um flutninga. Guðjón segist skilja þessa hræðslu fólksins en ekki geta tekið undir að sú leið sem vísað er til sé greiðfærari en aðrar til að viðhalda starfsemi á svæðinu. Hann bendir á að í hvert skipti sem óskað er eftir framlengingu á leyfinu sé sú ósk tekin til sérstakrar skoðunar.

Þegar Vaka hóf starfsemi sína á svæðinu hafði ekki verið fengið starfsleyfi og að sögn íbúa hlaust af starfseminni hljóðmengun, sjónmengun og loftmengun. Eftir að fyrirtækið fékk svo starfsleyfi fór heilbrigðiseftirlitið í fjölmargar úttektir og gerði ítrekað athugasemdir. Eftir að Reynir tók við sem framkvæmdastjóri hefur ýmislegt verið bætt. Pressan var færð inn í húsið, gámar voru fjarlægðir af svæðinu og girðingu komið upp, að ósk eftirlitsins. Það eimir þó enn eftir af vantrausti íbúa í garð Vöku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »