Druslugangan haldin í annað sinn á Húsavík

Druslugangan var gengin á Húsavík í dag.
Druslugangan var gengin á Húsavík í dag. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Þrátt fyrir yfirvofandi samkomutakmarkanir fór Druslugangan á Húsavík fram í dag í annað sinn. Aldey Traustadóttir, ein þeirra sem standa að göngunni, segir gönguna hafa tekist mjög vel.

Gangan var gengin frá sundlaug Húsavíkur að Borgarhólsskóla þar sem Silja Rún Reynisdóttir, Brynhildur Sverrisdóttir og Arnþór Þórsteinsson fluttu ræður og ljóð. Valdís Jósepsdóttir flutti síðan söngatriði. „Það var bara ótrúlega góður stemmari,“ segir Aldey.

Druslugangan og Húsavíkurkirkja í baksýn.
Druslugangan og Húsavíkurkirkja í baksýn. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Hugmyndin kviknaði hjá fjórum systrum

Druslugangan er haldin í annað skipti á Húsavík og segir Aldey að hún og systur hennar þrjár hafi fengið hugmyndina að halda göngu á Húsavík. „Við ákváðum fyrir tveimur árum að okkur fyndist ástæða til að halda þetta á Húsavík,“ segir Aldey en þær systurnar tóku sig saman og skipulögðu gönguna eftir að hafa ráðfært sig við skipuleggjendur göngunnar í Reykjavík. 

Gangan er samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis. Aldey segir að skipulagning göngunnar í ár hafi verið auðveldari enda hefur umræðan um þolendur kynferðisofbeldis verið í deiglunni undanfarið. 

Umræðan í deiglunni

„Fólk var meira tilbúið í vinnuna núna, fyrir tveimur árum var Druslugangan mjög nýtt fyrirbæri fyrir Húsvíkingum. Fólk var hins vegar meðvitaðra um gönguna núna og því fannst mér betri stemning í kringum þetta núna.“

Aldey nefnir að lokum að vitundavakning varðandi skömm þolenda sé gríðarlega mikilvæg. 

Með Druslugöngunni viljum við færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum yfir á gerendur. Við viljum ekki einblína á klæðnað, hegðun eða fas þolenda sem afsökun fyrir kynferðisglæpum. Færum skömmina þangað sem hún á heima.

„Skilum skömminni“-kassinn

„Skilum skömminni“ kassinn
„Skilum skömminni“ kassinn Ljósmynd/Aðsend

Druslugangan í Reykjavík átti að fara fram í dag en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Aktívistahópurinn Öfgar hélt þó gjörning sem átti að að vera hluti af göngunni. Hópurinn hittist við Hallgrímskirkju og setti upp kassa þar sem fólki gafst tækifæri til þess að skila skömm sem það hefur borið. Kassinn ferðaðist síðan á Austurvöll seinnipart dags.

Hópurinn Öfgar kom saman við Hallgrímskirkju.
Hópurinn Öfgar kom saman við Hallgrímskirkju. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is