Tannbrot og tveir handteknir á tvítugsaldri

Hópslagsmál í Mosfellsbæ um helgina samkvæmt dagbók lögreglu en aðeins …
Hópslagsmál í Mosfellsbæ um helgina samkvæmt dagbók lögreglu en aðeins tveir voru þó handteknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan var kölluð til vegna slagsmála sem brutust út í gleðskap í Mosfellsbæ um helgina. Tveir á tvítugsaldri voru handteknir.

Enginn slasaðist alvarlega að öðru leyti en að það brotnaði tönn og því er málið til rannsóknar sem meiriháttar líkamsárás.

Hildur Rún Björnsdóttir stýrir rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir málið vera í skoðun en enginn sé þó í varðhaldi. „Þetta er bara eitthvað sem virtist fara úr böndunum í partíi í heimahúsi.“ 

Í gleðskapnum voru um tíu ungmenni en aðeins tveir voru handteknir. Í dagbók lögreglu er talað um hópslagsmál. Hildur segist ekki alveg viss hvers vegna en aðeins liggja fyrir upplýsingar um þessa tvo einstaklinga. 

mbl.is